152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

geðheilbrigðismál.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að vekja máls á þessum mikilvæga málaflokki sem geðheilbrigðismál og lýðheilsan eru. Og svarið er einfaldlega já, ég mun alla daga deila þeim áhyggjum með hv. þingmanni og fagna því að hv. þingmaður sé að koma til fylgis við okkur í því átaki sem við ætlum að gera.

Ég vil kannski koma því að í seinna andsvari sem ég kom ekki inn á í fyrra andsvari: Af því að Covid hefur áhrif á allt okkar samfélag og ýkir þá stöðu sem er uppi, sérstaklega í þessum málaflokki — og það er rétt að erfitt er að benda nákvæmlega á fjármuni af því að andleg og félagsleg heilsa er vítt hugtak og fer þvert á ráðuneyti — þá eru tveir stýrihópar sem forveri minn setti af stað (Forseti hringir.) búnir að vera í gegnum allt ferlið og vakta stöðuna jöfnum höndum. (Forseti hringir.) Við fáum upplýsingar frá þessum stýrihópum og nýtum þá vinnu.