152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[22:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Þetta er t.d. það sem mig langar að fjalla um í seinni ræðu minni í kvöld af því að ég hef áhyggjur af menningarmálunum. Það er mikið talað um að auka vægi menningar, gott ef ekki í stjórnarsáttmála meira að segja, og nýtt ráðuneyti menningar og viðskipta. Það hefur verið kvartað yfir því að menningarmálin séu skúffa, en þegar ég horfi á meginmálaflokka ráðuneytisins þá sýnist mér að menningarmálin, ef maður horfir á þau fyrir utan menningu sem er drifin áfram af hagnaðarsjónarmiðum, verði undir í þessu ráðuneyti. Ég held að þau muni týnast, mér sýnist það. Það er mjög mikið talað um kvikmyndagerð, að efla kvikmyndagerð sem er frábært verkefni, algjörlega frábært. En ég hef áhyggjur af þeirri menningu sem við höfum verið svo ótrúlega stolt af alla tíð að leyfa að lifa um allt land.