152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

atvinnuleysistryggingar.

[14:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil fjalla um tvo galla í lögum um atvinnuleysistryggingar og spyrja hæstv. ráðherra álits á þeim. Til að vera tryggður þarf viðkomandi að vera orðinn 18 ára en yngri en 70 ára. Tökum sem dæmi 16 ára einstakling sem velur að fara ekki í framhaldsskóla en heldur út á vinnumarkaðinn, starfar í 12 mánuði í 100% starfi og vinnur sér inn, samkvæmt lögum, rétt til atvinnuleysistrygginga, þar sem tryggingagjald er borgað af launum hans. Einhverra hluta vegna missir viðkomandi vinnu sína eftir ár í starfi og samkvæmt almennum reglum atvinnuleysistrygginga ætti hann rétt á bótum en fær ekkert út af aldurstakmarki. Þar er bara ákveðin mismunun vegna aldurs. Sama má segja um fólk sem vinnur eftir sjötugt og missir starf sitt. Greitt er tryggingagjald af launum viðkomandi en sá hinn sami fær ekki rétt til bóta. Stærra vandamál í þessu eru síðan námsmenn sem eru undanskildir — það er ekki beint galli heldur er einfaldlega valið að skilja þá út undan. Þarf ekki annaðhvort að laga þessa mismunun eða leggja tryggingagjaldið niður af launum fólks sem er yngra en 18 ára og eldra en 70 ára, og þá kannski af launum námsmanna líka?

Annan galla er að finna í reglum um tekjutengingu atvinnuleysistrygginga en þar eru laun tekjulægstu barnafjölskyldna lægri fyrstu sex mánuði bótatímabilsins. Sá sem ekki nær viðmiðum tekjutengingar eða lágmarkinu nýtur ekki hækkunar á framfærslu með hverju barni á þeim tíma sem tekjutengingartímabilið varir, fær einungis 4% hækkun fyrstu sex mánuðina, og náttúrlega enga tekjutengingu, en eftir það 6%. Heildargreiðslan frá Vinnumálastofnun er því lægri fyrstu sex mánuðina af bótatímabilinu ef maður á barn. Lagagreinarnar sem valda þessu eru nokkrar og flækjustigið er þó nokkurt. Og hvort sem þetta var markmið laganna eða ekki þegar þau voru sett þá skýtur þetta dálítið skökku við, ekki satt? Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki eigi að laga svona galla.