152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

þátttaka stjórnarliða í umræðum.

[14:49]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Mér fannst áhugavert að heyra það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að þylja hér upp um það hversu langt er síðan að flokksmenn tiltekinna flokka hafa komið upp í ræðustól. Það er eiginlega svolítið magnað að verða vitni að þessu. Ég vil hins vegar nefna það að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa verið hér að fylgja eftir sínum málum og átt orðastað við þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Við sem erum í stjórnarandstöðunni höfum ekki sama aðgang að nefndum Alþingis og stjórnarliðar þannig að skoðanaskipti í þessum sal, sem eru líka fyrir almenning sem er heima að fylgjast með og fyrir fjölmiðla, skipta gríðarlega miklu máli. Í umræðum í gær þar sem við vorum að ræða um Stjórnarráðið er t.d. verið að tala um að þetta séu miklar og nauðsynlegar breytingar til að mæta nýjum áskorunum og takast á við ný eða breytt verkefni í takt við þarfir hvers tíma. Hafa stjórnarliðar í alvöru ekki skoðun á þessu? Hafa þeir sem eru mestu virkjunarsinnar í Sjálfstæðisflokknum ekki skoðun á því hvernig þetta nýja ráðuneyti (Forseti hringir.) eigi að vera eða þeir sem eru mestu umhverfissinnarnir í VG? Þetta vantar inn í þennan sal. Það er ekki nóg að ræða þetta bara í nefndunum.