152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og hans mikla dugnað hér í þingsal í gegnum tíðina. Ég verð að viðurkenna að eins og ég er oft sammála hv. þingmanni þá finnst mér hann stundum kannski ekki alveg sanngjarn í framsetningu sinni varðandi það sem gert er. Ég hjó sérstaklega eftir því að hv. þingmaður kom inn á umræðu um hjúkrunarheimili og þá staðreynd að ungt fólk er í rauninni neytt í þá stöðu að búa inni á hjúkrunarheimili með sér mun eldra fólki. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið enda hef ég oft viðrað þau hér. Ég held að það sé mikilvægt að við sameinumst um fjölbreyttari lausnir.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega NPA, sem við erum jú vissulega aðeins að bæta í í fjárlagafrumvarpinu en ættum eflaust að gera meira. En, virðulegur forseti, ég held að það sé svo mikilvægt að horfa á heildarmyndina, að það eru ekki bara hjúkrunarheimili, þar sem eldra fólk er, eða NPA. Það eru fleiri búsetuúrræði sem við þurfum að horfa til. Ég hygg að hagsmunahóparnir hafi einmitt verið að berjast fyrir því. Aldraðir nefndu það reyndar sérstaklega fyrir síðustu kosningar. Þannig að ég vil hvetja hv. velferðarnefnd og hæstv. heilbrigðisráðherra áfram í þeirri vinnu að við hugum að fjölbreyttari lausnum, að koma til móts við fólk varðandi mismunandi úrræði.

Hv. þingmaður nefndi það líka sérstaklega að vegna þess að við hefðum efni á því að setja alla þessa fjármuni í Covid-aðgerðir ættum við að hafa efni á því að setja þá fjármuni í önnur góð málefni. Ég beini þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann telji ekki ástæðu til að fara að huga einmitt að því núna, þegar við erum bráðum að fara að klára annað árið með þessari veiru, að breyta forgangsröðuninni og taka mögulega eitthvað af þeim fjármunum sem við setjum í Covid-aðgerðir og verja þeim í eitthvað annað. En einnig er mikilvægt, virðulegur forseti, að við munum að ríkissjóður er í verulegum halla og við erum auðvitað að taka lán sem börnin okkar munu þurfa að borga fyrir í framtíðinni vegna þeirra aðgerða sem við höfum þurft að fara í.