152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við stöndum hér í sal Alþingis, sem er þessi salur sem ber uppi lýðræðislega umræðu, pólitíska umræðu, bæði fyrir okkur hér en ekki síst fyrir þá sem heima sitja, fyrir almenning, en við störfum fyrir almenning. Ég vil bjóða hæstv. fjármálaráðherra að leggja frá sér gullbikarinn og stíga niður úr því hásæti sem hann er búinn að koma sér fyrir í. Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra prófi að bera virðingu fyrir Alþingi og störfum Alþingis. Hér er löggjafarvaldið. Það er hér sem fjárveitingavaldið er. Og það er þvílík hneisa hvað hann virðist bera ótrúlega litla virðingu fyrir því starfi sem fer fram hérna. Þessi framkoma er algjörlega óboðleg. Nefndarfólk í hv. fjárlaganefnd er búið að vinna myrkranna á milli og óskar eftir því að fá að koma sínum áherslupunktum á framfæri fyrir allra augum en ekki um miðja nótt. (Forseti hringir.) Og þessir hæstv. ráðherrar tveir sem koma hérna og (Forseti hringir.) berja sér á brjóst fyrir vinnusemi — þetta er beinlínis hlægilegt. (Forseti hringir.) Það er verið að tala um virðingu við almenning sem hefur jafnvel áhuga á að vita hvað við (Forseti hringir.) erum að gera hérna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)