152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[23:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bregðast stuttlega við þessari löngu ræðu um fjárlagafrumvarpið. Nú við 2. umr. verð ég að segja að það kemur töluvert mikið á óvart að það sé lítið staldrað við samhengi hlutanna, má ég t.d. nefna hallann á ríkisfjármálum, sem er ekki komið inn á hér í framsögu við 2. umr., og breytingar sem eru að verða á hallarekstrinum. En þeim mun meira er talað um formsatriðin og eiginlega eingöngu um formsatriði. Lög um opinber fjármál, það mætti halda að þau væru hérna á dagskrá eða framkvæmd fjárlaga. Skil ég það rétt að þingmaðurinn telji að við ættum að hafa þetta þannig að ráðherrarnir hefðu sjálfdæmi um það hvernig þeir færu með fjárheimildir innan ársins á grundvelli þeirra verkefna sem þeir hafa á sinni könnu? Vegna þess að það virðist vera gerð mikil athugasemd við það hvernig þessu er stillt upp í lögum um opinber fjármál, sem gengur út á það að ráðherrarnir senda tillögu til fjármálaráðherra og fjármálaráðherrann (Forseti hringir.) ber ábyrgð á því að koma með tillögu til þingsins og það er þingið sem á endanum (Forseti hringir.) ákveður fjárheimildir til þeirra málaflokka sem er að finna í fjárlögum.