152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Í þessum fjárlögum eru einstaka góðar tillögur, einstaka slæmar. En það sem er aðalvandamálið við þessi fjárlög er það sem vantar og það er það sem stjórnarandstaðan leggur áherslu á, það sem vantar. Það er ákveðinn galli í framkvæmd þessara fjárlaga. Þau eru gríðarlega ógagnsæ sem gerir það að verkum að það eru sumar tillögur sem er einfaldlega ekki hægt að greiða atkvæði um. Það er ekki hægt að fá sundurliðun til að geta sagt: Já, ég vil þessa 10 millj. kr. hækkun vegna stjórnarskrárvinnu, en nei, ég vil ekki fá hinar milljónirnar sem fylgja því. Það er einfaldlega sett saman í eina summu sem ég get ekki sem þingmaður sagt já eða nei við hvort í sínu lagi. Þess vegna og líka í ljósi ástandsins þá almennt séð biðjum við ekki um sundurliðanir til að hlutirnir gangi aðeins betur fyrir sig og sitjum hjá í velflestum tillögum ríkisstjórnarinnar.