152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir þetta innlegg. Hvað varðar fjölgun opinberra starfa sem lausn, eða kannski sem hluta af aðgerðum, til að koma okkur út úr kreppunni þá má ég til með að hrósa stjórnarmeirihlutanum á síðasta kjörtímabili fyrir að hafa skapað hátt í 1.000 opinber störf, að mér skilst, í gegnum ráðningarstyrki með almennum úrræðum þar sem farið var svolítið bakdyramegin að því. Það er bara þannig að sveitarfélög og hið opinbera báru hitann og þungann þarna. Það var gríðarlegur fjöldi opinberra starfa sem þarna skapaðist þannig að við getum þá kannski bara verið sammála um að það sé hið besta mál og að hið opinbera hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna og til þess þurfi m.a. að styrkja tekjugrunn ríkisins og gera það eftir öðrum leiðum en þeim sem fela í sér hækkandi skattbyrði á launafólk (Forseti hringir.) sem, eins og viðurkennt er í greinargerð fjárlagabandormsins, hefur svolítið verið leiðin sem hefur verið farin í stjórnartíð hæstv. fjármálaráðherra.