152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

skattar og gjöld.

4. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Þetta er 4. mál. Að nefndarálitinu standa sú sem hér stendur, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Diljá Mist Einarsdóttir.

Ég vil þakka nefndinni fyrir gott og málefnalegt samstarf við umfjöllun nefndarinnar í málinu. Líkt og fram kemur í nefndarálitinu fékk nefndin á sinn fund aðila frá Skattinum og fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Umsagnir bárust frá Hagsmunasamtökum heimilanna og Skattinum, auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Í frumvarpinu er kveðið á um skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá m.a. þannig að við skilyrðin bætist krafa um að ársreikningi hafi verið skilað til ríkisskattstjóra og að ekki sé um vanskil á sköttum, gjöldum eða skýrslum að ræða. Nefndin fellst á þau sjónarmið sem koma fram í álitinu og leggur til breytingar þar að lútandi.

Með 15. gr. frumvarpsins er lagt til að tímabundin skattaívilnun vegna útleigu vistvænna ökutækja, sem kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða XXXIX í lögum um virðisaukaskatt, verði rýmkuð þannig að hún nái ekki eingöngu til leigusala sjálfra heldur einnig til framleigu á ökutækjum og útleigustarfsemi á vegum framleigutaka.

Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er lagt til að gerðar verði frekari breytingar á ákvæðinu þannig að fallið verði frá því skilyrði ívilnunar samkvæmt því að við kaup eða innflutning hafi ökutæki fallið undir ívilnun á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögunum. Er tilgangur þessa að ökutækjaleigum og fjármögnunaraðilum verði mögulegt að nýta ívilnun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXIX vegna vistvænna bifreiða þrátt fyrir að gildistími ívilnana vegna þeirra samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV hafi runnið út. Er þannig betur gætt samræmis við markmið ákvæðisins um að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum.

Nefndin tekur undir tillögu ráðuneytisins, með vísan til þess sem fram kemur í minnisblaðinu, og leggur til breytingar á 15. gr. frumvarpsins í því skyni.

Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er lagt til að bætt verði nýju ákvæði til bráðabirgða við lög um virðisaukaskatt þar sem heimilað verði, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að sækja um endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið við innflutning eða fyrstu sölu nýs loftfars, hreyfils eða loftskrúfu sem nýtir rafmagn eða vetni sem orkugjafa á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 31. desember 2027. Sambærilegt ákvæði til bráðabirgða var í frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til nýrra heildarlaga um loftferðir sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga.

Í minnisblaðinu segir að slík endurgreiðsla virðisaukaskatts kunni að fela í sér ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, samanber lög nr. 2/1993. Þó séu ákveðnar undantekningar frá almennu banni við ríkisaðstoð sem geti einkum átt við ef talið er að jákvæð áhrif ríkisaðstoðar á samfélagið geti vegið þyngra en sú röskun á samkeppni sem af henni hlýst. Þar er m.a. vísað til ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA frá 7. júlí 2021 um skattalegar ívilnanir hér á landi vegna vistvænna ökutækja. Ráðuneytið leggur til, að höfðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, með vísan til markmiða stjórnvalda um orkuskipti í flugi á Íslandi og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, að fyrrgreindu ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt.

Nefndin fellst á þau sjónarmið og leggur til að við IV. kafla frumvarpsins bætist grein um að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um virðisaukaskatt um framangreint efni. Vísar nefndin að auki til skýringa í minnisblaði ráðuneytisins sem og í greinargerð með áðurnefndu frumvarpi til laga um loftferðir sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði fram á síðasta þingi.

Í ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., kemur fram undanþága um útreikning vörugjalds af húsbílum. Ákvæðinu var bætt við lögin samkvæmt tillögu meiri hluta þáverandi efnahags- og viðskiptanefndar, samanber nefndarálit um 450. mál á 150. löggjafarþingi, til að bregðast við aðstæðum varðandi húsbíla í kjölfar viðamikilla breytinga á fyrirkomulagi álagningar vörugjalds vegna breytinga á útblástursmælingum. Í nefndarálitinu kom fram að undanþágan væri lögð til sem tímabundin lausn þar til varanleg lausn fyndist. Undanþágan hefur síðan verið framlengd einu sinni og rennur út um áramót að óbreyttu. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að varanleg lausn liggi ekki fyrir og því sé rétt að leggja til framlengingu á umræddu ákvæði. Nefndin tekur undir það og telur rétt að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XVIII í lögum nr. 29/1993 verði framlengdur um eitt ár.

Í 18. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um bifreiðagjald er snúa að losunarviðmiði koltvísýrings vegna notkunar ökutækja og viðmiði gramma og hlutfallstalna við útreikning bifreiðagjaldsins.

Við meðferð frumvarpsins í 3. máli á yfirstandandi þingi barst nefndinni minnisblað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem þess er farið á leit við nefndina að við frumvarpið bætist ákvæði um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993. Er lagt til að við þau lög bætist ákvæði til bráðabirgða um að lengt verði það tímabil innan ársins 2022 sem afmarkar lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis. Samkvæmt minnisblaði ráðuneytisins eru þau tímabil sem lögð eru til í samræmi við tillögur Bændasamtaka Íslands og Félags atvinnurekenda. Breytingunni er ætlað að tryggja nægjanlegt framboð til hagsbóta fyrir neytendur, koma í veg fyrir skortstöðu og draga úr líkum á tímabundnum verðhækkunum vegna álagningar tolla þegar innlent vöruframboð er ekki nægjanlegt. Meiri hlutinn fellst á tillögu ráðuneytisins um að bregðast við stöðunni með bráðabirgðaákvæði við búvörulög og leggur til að nýr kafli þess efnis bætist við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar.

Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.