152. löggjafarþing — 19. fundur,  28. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég get verið sammála hv. þingmanni um áhyggjur af loftslagsmálum. Ég held að það sé ein af okkar allra stærstu áskorunum. Ég er stolt af því að styðja ríkisstjórn sem hefur sett loftslagsmarkmiðin í fyrsta sæti, er með metnaðarfullar aðgerðaáætlanir í loftslagsmálum sem lúta að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Mér finnst sjást skýr merki um það bæði í stjórnarsáttmálanum og í fjárlögunum. Ég útiloka ekki að það þurfi að setja enn meiri fjármuni til loftslagsmála þegar fram líða stundir. En mér finnst líka mikilvægt að nefna, virðulegur forseti, þegar við horfum á svona risastóran málaflokk eins og loftslagsmálin, að þó að vissulega geti það kostað fjármuni að ná ákveðnum árangri þá snýst þetta líka um að við setjum upp svokölluð loftslagsgleraugu, alveg eins og við höfum rætt um jafnréttismál og hvað þau skipta miklu máli og að við horfum á allt út frá jafnréttismálum. Það sama á við um loftslagsmálin. Það eru svo margar ákvarðanir sem hið opinbera er að taka og í öllum þessum ákvörðunum þurfa loftslagsgleraugun að vera á lofti. Það kallar ekki endilega á fjármuni frá ríkinu. Það getur stundum bara kallað á breytt vinnubrögð, breyttar áherslur að einhverju leyti, og mér finnst sjást skýr merki þess. En ég hlakka til að takast á við þennan vanda með hv. þingmanni á komandi árum þannig að við í þinginu veitum gott aðhald og þegar að öllum ákvörðunum kemur séu loftslagsmálin höfð í fyrirrúmi.