152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

raforka til garðyrkjubænda.

[15:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það gleður mig mjög að hv. þingmaður á frumkvæðið að því hér að setja þessi mál á dagskrá af því ég tel mikilvægt að í umræðunni almennt um innlendan landbúnað þá setjum við garðyrkju og garðyrkjuframleiðslu í enn meiri forgrunn en við höfum áður gert. Það eru sérstaklega mikil sóknarfæri þarna sem eru í samræmi við bæði markmið okkar að því er varðar matvælaöryggi en líka losun gróðurhúsalofttegunda og margra þeirra viðfangsefna og verkefna sem eru sífellt ofar á dagskránni þegar áskoranir 21. aldarinnar eru annars vegar. Ég hlakka til að takast á við þennan þátt míns ráðuneytis og ekki síður að eiga samstarf við hv. þingmann um það.