152. löggjafarþing — 21. fundur,  17. jan. 2022.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[23:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða annan af tveimur liðum í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem þingflokkur Pírata situr hjá í. Ég gerði nánar grein fyrir ástæðunum fyrir því í ræðu hér áðan um þetta mál en ég vildi árétta að ástæðan fyrir því að við sitjum hjá er einfaldlega sú að við erum ekki sannfærð um að þessi breytingartillaga skili tilætluðum árangri. Ég lagði til á fundi nefndarinnar að nefndin tæki sér tíma til að koma fram með sitt eigið mál sem næði til þessarar starfsemi til að tryggja það að ákvæðið nái tilætluðum árangri. Auðvitað er óskandi að ég hafi rangt fyrir mér í þessu tilfelli en ég held að það hefði ekki verið verra að vera viss um að ákvæðið myndi virka í ljósi þess hraða sem breytingartillögurnar voru unnar á. Þar af leiðandi sitjum við hjá og styðjum ekki þetta ákvæði.