152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

sala Símans hf. á Mílu ehf.

[15:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, fyrir að taka þetta mál upp sem auðvitað hefur einnig verið til umræðu undir umræðum um frumvarp vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um söluna á Mílu. Það er ágætt að rifja það upp að hér er um viðskipti að ræða þar sem einkafyrirtæki selur erlendum aðila þetta undirfyrirtæki, einkafyrirtæki, sem er í eigu, vissulega að hluta til, Stoða, sem hv. þingmaður nefndi, sem áttu stóran hlut en meðal 20 stærstu hluthafa áttu lífeyrissjóðir landsmanna og þar með almennings tæplega 56% hlut í fyrirtækinu þannig að þessi ákvörðun er tekin af þessum aðilum.

Vissulega var búið að koma fram, bara svo það sé líka sagt hér, að fyrirtækið væri að skoða mögulega sölu en hins vegar lá þessi tiltekna sala ekki fyrir fyrr en um miðjan ágúst þegar forstjóri Símans óskað eftir fundi með mér og upplýsti mig um þetta. Í beinu framhaldi setti ég þetta mál á dagskrá þjóðaröryggisráðs af því að það er mín skylda að við skoðum þessi viðskipti út frá þjóðaröryggishagsmunum. Önnur ráðuneyti fara síðan með ákveðna þætti sem tengjast markaðsmálum og neytendamálum. Ég vil ítreka að það er vissulega mikilvægur hluti en það hefur ekki verið til umræðu á vettvangi þjóðaröryggisráðs sérstaklega.

Þetta vekur okkur til umhugsunar um það að við hér á landi höfum enn þá ekki sett reglur um rýni á erlendum fjárfestingum í mikilvægum innviðum en það mál er hins vegar á þingmálaskrá minni. Ég hef boðað það og hef verið að líta til norrænna fordæma en nágrannalönd okkar á Norðurlöndum hafa eitt af öðru verið að setja slíka löggjöf undanfarin ár, raunar síðastliðin tvö ár sérstaklega. Það er auðvitað gríðarstórt mál að horfa til þess, hvað innviði okkar varðar, að í senn sé gætt þjóðaröryggis og samfélagslegs öryggis. Sömuleiðis hefur Evrópusambandið mótað stefnu um slíkar innviðafjárfestingar og að hún geti falið í sér mögulega öryggisógn. Þetta frumvarp, sem von er á frá mér á þessu þingi, mun gefa stjórnvöldum möguleika til skoðunar og mats á því hvort áform um fjárfestingu á tilteknum sviðum geti ógnað tilteknum grundvallarhagsmunum ríkisins og almennings.

Hv. þingmaður spyr um lagaheimildina í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri. Þar hefur vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagt fram það frumvarp sem ég nefndi í upphafi sem tekur á tilteknum atriðum hvað varðar þessa fjárfestingu en með því að samningar tókust milli ríkisins og Mílu, eftir framlagningu þess frumvarps, reyndist ekki brýn nauðsyn á að afgreiða það mál í flýti fyrir jól. En auðvitað varpar það ljósi á það hversu mikilvægt er að styrkja þennan lagaramma almennt.

Eftir að ég setti þessa tilteknu sölu á dagskrá ríkisstjórnar var sett í gang greiningarvinna. Haft var samráð við Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlitið. Í kjölfarið var ákveðið að efna til viðræðna við Símann um ráðstafanir til að vernda þjóðaröryggishagsmuni í tengslum við söluna. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leiddi þær viðræður af hálfu ríkisins og síðan var frumvarpið sem ég nefndi hér áðan undirbúið. Viðræður stjórnvalda fóru fram við Símann sem seljanda Mílu, Ardian sem kaupanda Mílu, sem og við Mílu sjálfa. Þær viðræður leiddu til samkomulags þann 13. desember um tilteknar kvaðir vegna þjóðhagslega mikilvægra fjarskiptaneta Mílu. Það samkomulag er í takti við upplegg og áherslur ríkisstjórnarinnar í þessum viðræðum og þessi samningur var staðfestur á fundi ríkisstjórnarinnar 14. desember. Auk þess fór fram rýni á grundvelli laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, og þar var kallað eftir upplýsingum um eigendur og helstu lykilstarfsmenn. Ardian er franskt sjóðastýringarfyrirtæki með u.þ.b. 120 milljarða dala í stýringu. Fjárfestar í þeim sjóðum Ardian sem hér eiga í hlut eru 190 talsins og þar er einkum um að ræða alþjóðlega stofnanafjárfesta. Fjárfestarnir, sem eru að meginstefnu til lífeyrissjóðir og vátryggingafélög, eiga ekki að hafa áhrif á einstaka fjárfestingarsjóði Ardian og niðurstaða viðkomandi ráðherra varð að hann taldi ekki tilefni til að stöðva viðskiptin á þessum grunni. Salan er hins vegar til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Það er skammur tími til að fara yfir þetta mikilvæga mál en ég vil ítreka það hér að allt frá því að þetta stóð fyrir dyrum hefur þetta mál verið rætt á viðeigandi vettvangi. Þar koma auðvitað upp ýmis grundvallaratriði eins og hvað okkur finnst um það að slíkt innviðafyrirtæki sé í einkaeigu. (Forseti hringir.) Sú ákvörðun var tekin fyrir allmörgum árum í tíð allt annarrar ríkisstjórnar en ég tel hins vegar að ríkisstjórnin hafi gætt að (Forseti hringir.) hinum mikilvægu öryggishagsmunum alveg frá því að þetta mál var fyrst sett á dagskrá hjá okkur.