152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

jarðgöng í Súðavíkurhlíð.

[11:04]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég deili þeirri líðan hv. þingmanns þegar við heyrum talað um snjóflóð, á þeim svæðum þar sem snjóflóð falla, hvort sem er í byggð eða á vegum. Við sáum reyndar á síðasta ári að snjóflóð fóru að falla á fleiri vegi en við höfum áður séð. Mér líður alltaf illa þegar slíkt er og ég skal líka viðurkenna það fyrir hv. þingmanni að sams konar tilfinning hellist yfir mig þegar ég sé tilkynningar eða heyri í þyrlu á erfiðum dögum þar sem mig grunar að alvarleg umferðarslys hafi orðið. Ætli það sé ekki staðreynd að það séu nokkuð margir staðir á Íslandi þar sem geta annars vegar komið snjóflóð eða séu erfiðar aðstæður. Það er líka staðreynd ef við horfum bara á tölfræðina, og er ástæðan fyrir þeirri forgangsröðun sem við höfum tekið um að aðskilja akstursstefnur á vegunum til og frá höfuðborginni, á Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut, að líkurnar á því að þar farist fólk, ef við horfum svona 10–20 ár aftur í tímann, eru einn til nokkrir á hverju einasta ári. Á tíu árum eru það orðnir tugir manna. Það er ástæðan fyrir þeirri forgangsröðun sem er í núgildandi samgönguáætlun. Við höfum hins vegar sett af stað jarðgangaáætlun sem Vegagerðin hefur verið að vinna að, þar á meðal eru að sjálfsögðu jarðgöng við Súðavík. Það eru fleiri jarðgöng sem þar er verið að horfa á. Þessi vinna verður eðlilega hluti af næstu samgönguáætlun.

Í stjórnarsáttmálanum tölum við um að mikilvægt sé að horfa til reynslu annarra þjóða. Þar erum við að tala um Færeyjar fyrst og fremst, þar hefur verið sett á laggirnar jarðgangafélag sem tryggir að það séu a.m.k. ein jarðgöng í gangi í einu, jafnvel fleiri. Ég held að það sé forsenda fyrir því að við munum geta farið í framkvæmdir við nægjanlega mikið af jarðgöngum, þau eru sannarlega umferðaröryggismál, bæði í Súðavík og miklu víðar á landinu en þar.