152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[11:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil ekki alveg í hverju þessi munur felst. Vissulega var þar um vörsluskatta að ræða en það eru einmitt peningar sem við fáum til baka. Hér erum við að tala um peninga sem við fáum ekki til baka úr opinberum sjóðum sem fara til fyrirtækja sem eiga væntanlega við rekstrarvanda að stríða og þeim er leyft að taka út arð í kjölfar þess að fá ríkisaðstoð. Ef ég man rétt þá hefur það verið skilyrði fyrir flestum svona ríkisstyrkjum að ekki megi taka út arð ef þeir eru þegnir. Þetta hefur verið ansi algengt skilyrði þannig að ég skil ekki alveg hver munurinn er, að ef þú færð að fresta gjalddögum og þurfir á endanum að greiða til baka, færð í raun lán frá ríkinu, þá megir þú ekki greiða út arð en ef maður fær styrk frá ríkinu þá má maður það. Af hverju er þessi munur mikilvægur?