152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.

[14:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Með fullri virðingu, það skiptir engu máli hvað ráðherra er lengi í ríkisstjórn, hann hefur alltaf skoðun á málinu. Það skiptir máli að við fáum að heyra hverjar skoðanir hæstv. ráðherra eru á þessu. Og vel að merkja varðandi gegnsæi, ég bið ráðherrann að líta á frumvarp sem Viðreisn og fleiri fluttu um gegnsæi í sjávarútvegi og kröfu um dreifða eignaraðild og fleira. Þau mál eru öll til. Að öðru leyti sýnist mér þetta eingöngu vera um eitthvert snurfus, að einhverju leyti er um sýndarmennsku að ræða til að halda ríkisstjórninni saman því að fyrirstaðan fyrir réttlátum breytingum er nákvæmlega þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn með hv. þingmanni og ráðherra Vinstri grænna þrátt fyrir ágæt áform ráðherrans um einhverjar breytingar. Við sáum þetta bara síðast þegar auðlindaákvæði í stjórnarskrá var rætt á síðasta kjörtímabili. Þegar við ræddum fyrirkomulag veiðigjalda mátti engu breyta og kerfið frekar gert flókið og lítt gegnsætt. Síðan náttúrlega þessi dæmalausi feluleikur stjórnarinnar varðandi skýrsluna góðu um eignatengsl (Forseti hringir.) útgerðanna í íslensku atvinnulífi. Þannig að ég segi bara: (Forseti hringir.) Hvernig væri að setja þjóðina í fyrsta sæti þegar við skoðum breytingar á sjávarútvegskerfinu?