152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

strandveiðar.

[14:07]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra um að skerða þorskveiðiheimildir strandveiðibáta um 15% á sumri komanda hefur skiljanlega valdið vonbrigðum víða á landsbyggðunum. Það er einhvern veginn alltaf þannig að þegar skerða þarf kvóta þá kemur það niður á þeim sem minnst svigrúm hafa til að bregðast við slíku. Við vitum að strandveiðikerfið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jóns Bjarnasonar, kom á hefur náð að sporna gegn samþjöppun í sjávarútvegi og verið farsæl byggðaaðgerð. Strandveiðar yfir sumarið hafa tryggt útgerð hundraða smábáta sem landað hafa í tuga sjávarplássa um land allt. Gleymum því ekki að eitt af markmiðunum með lögum um stjórn fiskveiða er að vernda byggð og atvinnu í landinu öllu. Strandveiðimenn á ákveðnum svæðum horfa núna fram á atvinnuleysi í sumar. Aflaheimildir gætu hreinlega klárast áður en kemur að þeirra svæði eins og kerfið er byggt upp. Það er hvort tveggja ósanngjarnt og óskynsamlegt. Það vill þannig til að oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi hefur opinberlega tjáð sig um þessa ákvörðun og sagt að hana þurfi að leiðrétta. Einnig hefur verið ályktað um þessa ákvörðun í flokksfélagi Vinstri grænna í Skagafirði.

Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort komi til greina að gera breytingar á reglum við úthlutun strandveiðikvótans ellegar endurskoða þessa ákvörðun og gæta meiri sanngirni í því hvernig hún kemur niður á landsbyggðunum.