152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

ákvörðun um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

248. mál
[15:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Við styðjum það svo sannarlega að lífrænt ræktaðar vörur og lífræn framleiðsla hér á landi sé vel vottað og allt sé vel gert. Það er svolítið slæmt hvað þetta kemur seint hér inn í þingið. Það eru þegar aðilar sem hafa verið að reyna að flytja inn vörur frá áramótum sem hafa lent í því t.d. að að þurfa að borga aftur fyrir vottun af því að þessi reglugerð er ekki komin í gegn. Það er von mín að í meðförum utanríkismálanefndar um þetta mál verði reynt að hraða því sem mest, en líka að skoða það sérstaklega, og þetta er nokkuð sem við nefndum á fundi með matvælaráðherra í atvinnuveganefnd, hvaða áhrif Brexit hefur haft á innflutning á lífrænum vörum og lífrænu fóðri og passa upp á að þar verði ekki til aukakvaðir á innflytjendur umfram það sem þegar er. Við vitum t.d. um einn innflytjanda sem flytur inn lífrænar vörur frá Bretlandi sem er með vottaða vöru en þarf að greiða 400.000 kr. aftur fyrir að fá sömu vöru vottaða eftir að Brexit kom til framkvæmda nú um áramótin. Þannig að það er von mín að við getum afgreitt þetta hratt í utanríkismálanefnd til að tryggja að lífrænar vörur séu ekki með mikinn samkeppnishalla á við aðrar vörur og að þetta mál með Brexit verði skoðað sérstaklega.