152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

170. mál
[19:19]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað skil ég að menn hafi áhyggjur af því að þetta kunni að hafa einhver neikvæð áhrif á það sem þeir eru að gera. En menn mega ekki hræðast breytingarnar og gera síðan engar breytingar og lifa í þeim eitraða jarðvegi sem er hér þegar kemur að fjölmiðlaumhverfinu. Ég er algerlega sannfærður um að með þessum breytingum muni einmitt skapast ný tækifæri fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn og þau hafa verið að skapast á öðrum miðlum, í öðru formi o.s.frv. Menn eiga því fremur að líta á þetta sem tækifæri en sem ógn. En svo það sé sagt þá tek ég ekki undir með hv. þingmanni þegar hann segir að nauðsynlegt hafi verið að veita styrki til sjálfstætt starfandi fjölmiðla líkt og gert hefur verið. Þó að ég sé stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar taldi ég mér ekki kleift að styðja það frumvarp sem lagt var fram af ríkisstjórninni á síðasta þingi um opinberan stuðning við frjálsa fjölmiðla. Það gengur gegn öllu því sem ég stend fyrir. Það er einhver mesta hætta sem steðjar að frjálsum sjálfstæðum fjölmiðlum að vera háðir fjárveitingavaldinu, háðir okkur stjórnmálamönnunum, háðir ríkiskassanum. Það er eins og ópíum sem þú kemst aldrei af. Fjölmiðill, sjálfstæður fjölmiðill, sem á stóran hluta sinnar lífsafkomu undir velvilja stjórnmálamanna, möguleikanum á að fá dælt út úr ríkiskassanum, verður aldrei sjálfstæður. Þess vegna er ég á móti beinum opinberum styrkjum til sjálfstæðra fjölmiðla. (Forseti hringir.) Það er miklu skynsamlegra að fara í það að jafna samkeppnisstöðuna og gera síðan skattalagabreytingar sem tryggja jafna stöðu fjölmiðla.