152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[16:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að þetta séu gríðarlega mikilvægar spurningar sem við erum aðeins að velta á milli okkar og verð satt best að segja að viðurkenna það að mér finnst sem við höfum á tímabili tapað sjónum á lagalegri hlið þessara mála. Þá er ég að vísa til þess að sóttvarnarökin voru yfirgnæfandi í allri umræðu og réðu einu og öllu um það um hvernig við tókum ákvarðanir frá einum tíma til annars. Fyrst ég er aðeins búinn að opna á þetta þá vil ég segja það í beinu framhaldi að mér finnst heilt yfir hafa tekist gríðarlega vel. En það breytir því ekki að við megum aldrei missa sjónar á þeim takmörkunum sem lög setja stjórnvöldum í þessu efni. Það er ekki hægt að gera bara það sem þykir vera þægilegast heldur þarf að vega á móti sóttvarnarökunum ýmis réttindi sem m.a. eru varin í stjórnarskránni og varða atvinnufrelsi og persónufrelsi. Það er einungis þegar fram hefur farið heildarmat á þeim hagsmunum sem eru undir sem hægt er að komast að niðurstöðu sem stenst skoðun laganna. Í því sambandi finnst mér mjög áhugavert að velta því fyrir mér hvenær nákvæmlega erum við í raun og veru að tala um líf og heilsu, sem Páll Hreinsson skrifar töluvert um í sinni álitsgerð á sínum tíma. Hvenær erum við alveg örugglega að tala um sóttvarnaráðstafanir séu til að verja líf og heilsu og hvenær erum við mögulega komin inn á það að vera að reyna að létta á álagi af Landspítalanum eða annars staðar í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) vegna þess mikla álags sem þar hefur orðið vegna ástandsins í heild sinni? Eða er þetta mögulega einn og sami hluturinn? (Forseti hringir.) Þetta eru kannski of háfleygar pælingar til að eiga erindi inn í akkúrat umræðu dagsins en ég held að við séum ekki, (Forseti hringir.) þannig að ég svari því, að bæta úr ríkissjóði eitthvað sem augljóslega hefur verið ólögmætt hingað til.