152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.

116. mál
[15:53]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og að taka þetta mál upp. Og ég byrja á því að segja: Nei, það er ekki stefna Íslands að hér séu tveir flokkar ungmenna né tveir flokkar barna eða annarra þjóðfélagshópa.

Ég tek undir margt af því sem þingmaðurinn kom inn á í sínu máli; gagnrýni, áhyggjur og hvernig við getum brugðist við. Ég þekki þetta og er að sjá það frá aðeins annarri hlið eftir að ég tók við nýju ráðuneyti. Í ráðuneyti félagsmála, sem hefur m.a. vinnumarkaðinn á sinni könnu, náði ég að setja mig talsvert inn í málið frá þeirri hlið. Fyrir tilstilli fráfarandi menntamálaráðherra Lilju D. Alfreðsdóttur, var raunar settur á stofn verkefnahópur um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla. Hópurinn skilaði af sér í lok árs 2020 með tillögum að úrbótum og aðgerðaáætlun. Í þessum verkefnahópi voru fulltrúar frá menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þroskahjálp, Samtökum atvinnulífsins, aðstandendum og Átaki, félagi fólks með þroskahömlun. Sumar þessar tillögur eru þegar komnar til framkvæmda, aðrar eru enn í vinnslu. Nokkrar þeirra tillagna sem eru þegar komnar til framkvæmda eru til að mynda að þegar er búið að ráða sérstakan samhæfingaraðila í hálft stöðugildi, sem var ein af tillögum hópsins, og sá starfsmaður er hjá Þroskahjálp og er staðan fjármögnuð af menntamálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, Myndlistaskólanum í Reykjavík var veittur styrkur til að endurvekja sérsniðið nám fyrir fólk með þroskahömlun til að taka við ákveðnum fjölda, 12 nemendum, í fjögurra anna nám skólaárin 2019–2021, og mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur verið í viðræðum við Háskólann á Akureyri um möguleika skólans til að bjóða upp á diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun, líkt og er í boði við Háskóla Íslands. Það er því eitt og annað í vinnslu. Að auki má nefna að Fjölmennt er að færast til félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytisins ásamt málaflokki framhaldsfræðslu. Í tillögum verkefnahópsins var einmitt fjallað um að við stefnumótun hjá Fræðslusjóði og endurskoðun úthlutunarreglna yrði litið til menntunartækifæra fólks sem hefur notið þjónustu Fjölmenntar með það að markmiði að bæta aðgengi að menntun og fræðslu að loknu námi á starfsbrautum.

Ég enda á því sem ég sagði hér í upphafi: Það er ekki markmiðið að hér séu tveir flokkar ungmenna. Sú skýrsla sem unnin var með þeim tillögum sem þar voru, sem voru margar mjög góðar og lutu m.a. að samtali við atvinnulífið um fjölgun starfa, þessi umræða hér og það að þingmaðurinn taki þetta upp hér er hvatning til þess að tryggja að skýrslunni verði fylgt fast á eftir. Þó að einstaklingar hafi flust á milli ráðuneyta og núna sé annar félagsmálaráðherra og annar menntamálaráðherra þá mun þetta verða hvatning til þess. Ég þakka fyrir umræðuna og hlakka til að taka þátt í henni hér á eftir.