152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Grunnvandinn er langvarandi vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins, ekki síst þjóðarsjúkrahússins okkar. Þar erum við ekki bara að tala um nokkur misseri heldur núorðið tvo áratugi í það minnsta. Það er grunnvandinn. Það er einfaldlega þannig að það eru ekki allir á lágum launum í heilbrigðiskerfinu og ég ætla að fá að segja það hér að það er ekki eina svarið við þeim vanda sem uppi er. Það eru hins vegar stéttir innan heilbrigðiskerfisins sem eru á óviðunandi kjörum og það vill þannig til að það eru eiginlega allt saman kvennastéttir. Það er nefnilega kerfislæg mismunun í gangi. Það að henda stöku Hekluverkefni — pælið nú bara í nafninu — í konur á vinnumarkaði er ekki svarið við þeim vanda. Það þarf að vinna á kerfislægri mismunun og efla og bæta kjör kvennastétta og það þarf líka að huga að góðum starfsaðstæðum í heilbrigðiskerfinu.