152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

nýskráning á bensín- og dísilbílum.

131. mál
[17:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa miklu umræðu. Vandinn við kerfið sem hefur verið sniðið utan um orkuskipti í samgöngum á Íslandi er að það er bara búið að innleiða það til hálfs. Við erum komin með ívilnanahlutann á nýorkubílunum en það sem þarf til að halda jafnvægi á slíku kerfi eru svipurnar hinum megin. Það er búið að verja 23,5 milljörðum til að niðurgreiða rafmagns- og tengiltvinnbíla frá árinu 2012. Í öllum eðlilegum kerfum hefðu stjórnvöld innleitt stigvaxandi kolefnisgjald til að jafna þetta út, bæði til að tryggja að umskiptin væru réttlát og til að þetta væri jafnvel nánast ókeypis fyrir ríkissjóð, sem væri þá bara gegnumstreymissjóður fyrir þessi umskipti.

Í þessu samhengi er rétt að nefna, frú forseti, að í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn þess sem hér stendur, frá því í fyrra, kom fram að OECD miðar við 60 evrur sem svona ágætan jafnvægispunkt varðandi gjald fyrir hvert tonn af losuðu CO2. Á Íslandi er þessi tala 30.