152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[13:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar til að koma hingað upp og árétta að þetta er mjög alvarleg staða. Tökum efnisatriði út fyrir sviga, þótt þau séu vissulega mikilvæg, og áttum okkur á því að hér stöndum við frammi fyrir því að ein af undirstofnunum ríkisins er að brjóta lög, varna því að Alþingi geti uppfyllt lögbundnar skyldur sínar. Til þess virðist þessi undirstofnun hafa stuðning eigin ráðherra en hingað hafa aðrir ráðherrar hópast upp í ræðustól og lýst því yfir að þetta sé ótækt. Ég velti fyrir mér í hvaða stöðu við erum komin með hið háa Alþingi ef við stöndum hér núna í pattstöðu með þetta mál. Lög eru brotin. Við, Alþingi, virðumst ekki hafa úrræði. Leiðtogi ríkisstjórnarinnar virðist ekki hafa önnur úrræði en koma hingað upp í ræðustól og lýsa yfir vanþóknun sinni á stöðu mála. Þetta, frú forseti, er ótæk staða.