152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni. Ég hef óttast að það sé einmitt verið að reyna að eyðileggja þetta tvöfalda kerfi sem er svo mikilvægt því að það snýst um grundvallarréttindi fólks, ríkisborgararéttinn. Við setjum lög um ýmis atriði sem þarf að uppfylla til að fá þau rosalega mikilvægu réttindi. Það er bara ómögulegt að telja upp allar mögulegar aðstæður sem koma í veg fyrir slíkt. Fólk getur fengið umferðarsekt og þá allt í einu tikkar það bara í ákveðið box og umsókn þess er hafnað. Einhver svona smáatriði er stundum erfitt að sjá fyrir. Þess vegna er þessi tvöfalda leið, til að það sé örugglega verið að gera þetta á sanngjörnum forsendum, þ.e. að fólk sem kemst ekki í gegnum eitthvert nálarauga hjá Útlendingastofnun geti biðlað til stofnunarinnar sem býr til lögin og spurt: Voruð þið örugglega að meina að það væru svona atriði sem kæmu í veg fyrir að ég gæti fengið ríkisborgararétt? Við þurfum að hafa slíkt tvöfalt kerfi því að þetta er á mjög viðkvæmum forsendum — mannréttindi, ríkisborgararéttur — og það er ekki hægt að girða (Forseti hringir.) fyrir alla möguleika á undanþágum frá því.