152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

skaðabótalög.

233. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og það er mjög gott að finna fyrir hennar djúpu reynslu á þessu sviði. Mig langaði einmitt að fá að leita aðeins í reynslubrunn hennar varðandi tíðni þess að dómarar ákveði að skilja einkamál frá sakamáli. Á mínum lögmannsferli gerðist það í eitt einasta skipti að einkamál var skilið frá sakamáli. Það var ekki í málaflokki eins og þessum, það var ekki kynferðisbrot eða heimilisofbeldismál heldur annars konar mál þar sem bótakrafan var skilin frá og send annað. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún hefði einhvern tímann lent í því.

Hitt er kannski það að ég tel að það sé mikilvægt kennsluefni fyrir dómara að fá breiðari grunn af þessum málum fyrir framan sig, að þarna sé mögulega komið tækifæri líka fyrir dómara til að sjá að þessi mál gerast í öllum mögulegum aðstæðum, að viðbrögð brotaþola eru jafn mörg og ólík og stjörnurnar á himninum og sama með viðbrögð gerenda. En ég hef áhyggjur af því að ákæruvaldið sé með of þrönga skilgreiningu og hleypi ekki nógu mörgum málum alla leið í gegn.