152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

áhrif takmarkana vegna Covid-19 á börn.

[11:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni Diljá Mist Einarsdóttur fyrir umræðuna. Framhaldsskólaárin eru mikil mótunarár í lífi ungmenna og það er oftar en ekki þar sem framtíðarvinasambönd verða til. Við lærum á okkur sjálf, þroskumst og finnum leiðir okkar og langanir til framtíðar. Ég vil taka það fram að ég var og er enn á því að stytting framhaldsskólans hafi verið misráðin einmitt vegna þessa mikilvæga þáttar á þessum árum. En það er önnur umræða og þörf og ég vona að við getum tekið hana einhvern tímann í þessum þingsal.

Frú forseti. Því miður voru stjórnvöld algerlega sofandi hvað varðar viðbrögð til varnar heilsu og þroska ungmenna í heimsfaraldri sem nú hefur staðið í yfir tvö ár. Það má segja að það sé eðlilegt að svo hafi verið í byrjun heimsfaraldurs en nú þegar tvö ár eru liðin þá er lítið að frétta. Við upphaf faraldursins hefði vinna átt að hefjast hjá yfirmanni menntamála við að skapa grundvöll til félagsþátttöku sem er nauðsynleg meðfram náminu.

Frú forseti. Í vor munu ungmenni útskrifast úr framhaldsskóla sem hafa fengið eitt ball, busaball haustið 2019, og aðrar samkomur ekki. Öll önnur félagsstörf og félagsmótun hefur sömuleiðis verið í skötulíki, enda kennsla oft og tíðum í formi fjarkennslu. Hvernig væri að hæstv. ráðherra tæki sig til og gæfi framhaldsskólunum heimild til að veita nemendum eitt ár til viðbótar að eigin vali til að bæta upp fyrir þennan glataða tíma. Þá geta þau sem það vilja notið þess að bæta þekkingu sína á ýmsum sviðum, tungumálum, raungreinum, samfélagsgreinum, listgreinum, en síðast en ekki síst gætu þau eflt félagsþroska sinn á þessu ári sem er ekki síst mikilvægt til framtíðar.