152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég horfi á þá reynslu sem við höfum fengið hérna á síðustu tveimur árum þar sem ég sem þingmaður hef í rauninni haft vitneskju mína úr t.d. síðdegisþáttum útvarpsins þar sem sóttvarnalæknir er til viðtals um að hann sé að leggja fram minnisblað og hann sé að tala fyrir hinu og þessu. Í kjölfarið er míkrófónninn settur upp í ráðherra þegar hann labbar út úr Ráðherrabústaðnum og spurt: Á ekki örugglega herða aðgerðir núna? Hvað eigum við fara niður í? Þetta hefur svolítið verið mantran í þjóðfélaginu. Ég held að við séum algerlega komin sem samfélag á villigötur í þeim efnum. Ég sé fyrir mér að ferlið væri með þeim hætti að í stað þess að þetta gerist á einhverjum hlaupum á tröppunum fyrir utan ráðherrabústaðinn þá eigi sér stað samtal í nefndinni þar sem hv. þingmenn geta kallað eftir gögnum og rökstuðningi fyrir ákvörðunum og það komi svo skýrsla. Ég held að þetta auki gegnsæi, efli okkur í hlutverki okkar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar þegar verið er að setja svona íþyngjandi aðgerðir á samfélag okkar, sem ég vona auðvitað að við þurfum almennt ekki að fara í.