Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Kjartan Magnússon (S):

Hæstv. forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni grafalvarlega fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Fyrir tæpum tveimur árum sendir borgin sannkallað neyðarkall til Alþingis vegna slæmrar fjárhagsstöðu sinnar. Í umsögn borgarinnar til Alþingis um lagafrumvarp sagði eftirfarandi um fjárhagsstöðu borgarinnar, með leyfi forseta:

„Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára framundan standa undir afborgunum.“

Þetta eru ekki fögur lýsing, herra forseti, en síðan þessi orð voru skrifuð af fjármálastjóra Reykjavíkurborgar og afgreidd í borgarráði hafa fjármál borgarinnar versnað mjög. Borgin hefur safnað skuldum linnulítið í aldarfjórðung og eru þær komnar yfir 400 milljarða kr. Það þýðir að borgin hefur skuldsett hvern íbúa sinna um 3 millj. kr. og hverja fjögurra manna fjölskyldu um rúmar 12 millj. kr.

Herra forseti. Við erum ekki að tala um hvaða sveitarfélag sem er. Um er að ræða sjálfa höfuðborg landsins þar sem hátt í 40% landsmanna búa. Málið er því grafalvarlegt. Það væri gott að fá upplýsingar um það hér í þinginu hvort eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og ráðuneyti sveitarstjórnarmála hafa brugðist við þessu neyðarkalli á sínum tíma og hvaða leiðir séu færar til úrbóta. Er Reykjavíkurborg komin í gjörgæslu hjá sveitarstjórnarráðuneytinu eða á leið þangað? Áðurnefnt erindi borgarinnar ætti að hafa gefið fullt tilefni til þess fyrir tveimur árum. Ef ekki ætti að vera enn meiri ástæða til þess nú þar sem staða borgarinnar hefur haldið áfram að versna og samkvæmt áætlunum er stefnt að áframhaldandi ósjálfbærum rekstri og frekari skuldsetningu.

Ég mun leggja fram formlega fyrirspurn um málið til ráðherra sveitarstjórnarmála.