Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

umhverfismat framkvæmda og áætlana.

42. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ég bara vera flutt í ræðustólinn. Það er dásamlegt. Hér er æðsti ræðustóll landsins og það er ómetanlegt að koma hingað og geta fengið að mæla fyrir góðum málum og halda áfram að berjast. Þetta frumvarp lýtur að auðlindinni okkar, orkunni okkar, óvirkjaðri orku, framtíðarorku. Hvernig eigum við að halda utan um hana? Við erum auðvitað að tala um loftslagsvána. Við erum að tala um grænu orkuna okkar. Þessu frumvarpi er ætlað að koma böndum á það að einstaklingar eða lögaðilar geti safnað að sér virkjunarmöguleikum. Nú kem ég með hugtak sem ég missti út úr mér í kosningabaráttunni; safnað að sér þessum nýtingarrétti úti um allar koppagrundir.

Með mér á frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins. Ég fæ aldrei leið á því að segja nöfnin þeirra, þau eru svo falleg, og vonandi endar það með því að þið kunnið þau öll utan að. Þau eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A Tómasson.

1. gr. frumvarpsins kveður á um að eftirfarandi breytingar verði á 1. viðauka við lögin:

Vatnsorkuver, með uppsett rafafl 200 kW eða meira, falli í flokk A.

Vindorkuver, með uppsett rafafl 1 MW eða meira, falli í flokk A.

2. gr. Lög þessi öðlist þegar gildi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að mál þetta hafi áður verið flutt, og takið nú eftir, á 149., 150. og 151. löggjafarþingi. Ég er sem sagt að mæla fyrir þessu, sennilega eðlilegasta máli í heimi, í fjórða sinn. Þetta er dæmi um störf þingsins, dæmi um það hvernig vinnu í stjórnarandstöðu er sópað undir teppið eða hent í ruslið og ekki gert neitt með hana. Það er dapurt. Frumvarpið er nú lagt fram óbreytt en uppfært með tilliti til gildistöku nýrra laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Í gildandi lögum falla vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu með uppsett rafafl 1 MW eða meira í flokk B í 1. viðauka. Samkvæmt 1. mgr. 1. viðauka skal meta framkvæmdir sem falla undir flokk B í hverju tilfelli fyrir sig og af því leiðir að ekki er skylt að framkvæma mat á umhverfisáhrifum við slíkar framkvæmdir.

Framkvæmdir við gerð og rekstur fallvatnsvirkjana og vindbúa kunna að hafa í för með sér veigamikil áhrif á lífríki og náttúru. Óánægja ríkir með núverandi fyrirkomulag þar sem virkjanir undir 10 MW rafafli hafa hlotið framkvæmdaleyfi án þess að umhverfismat hafi farið fram. Þá geta vindmyllur með 1 MW valdið ýmsum umhverfisröskunum. Því er lagt til að öll vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu með uppsett rafafl 1 MW eða meira falli undir flokk A í 1. viðauka og framkvæmdaleyfi verði samkvæmt því ávallt háð mati á umhverfisáhrifum.

Virðulegi forseti. Við erum stolt af því að sýna það í verki, Flokkur fólksins, hvað við erum í raun og veru græn og væn, hvað við erum sönn í því að hugsa um náttúruna okkar og auðlindina okkar, orkuna. Við viljum vernda hana. Við viljum vanda okkur. Það er ekkert eðlilegra en að allar þessar virkjanir sem hér hafa verið taldar upp fari í umhverfismat. Ég vísa hér með þessu frumvarpi til hv. atvinnuveganefndar og vona að ég þurfi ekki að mæla fyrir því fyrir hönd Flokks fólksins í fimmta sinn.