Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[16:25]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma aftur að spurningu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur varðandi skipulagsmál og skipulagsvald. Þegar hún nefnir að hæstv. ráðherra hafi opnað á það að hluti af skipulagi sé á landsvísu þá tel ég að það sé skynsamlegt í einhverjum tilfellum, eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Og ef ég fæ aftur að koma inn á Suðurnesjalínu 2, þá er þar starfsemi sem er mjög mikilvæg fyrir þjóðaröryggi okkar, þ.e. alþjóðaflugvöllur. Þarna er orkuskortur. Þarna hefur verið viðvarandi orkuskortur í mörg ár. Þarna eru stór og mikil fyrirtæki, mikil starfsemi og gríðarlegur fjöldi íbúa sömuleiðis. Það er því áhyggjuefni þegar eitt sveitarfélag getur komið í veg fyrir að raforku sé streymt til þessarar heildar.

Ég er nýr þingmaður og ég er hér að ræða rammaáætlun í fyrsta sinn. Ég bind miklar vonir við að þinginu takist að koma rammaáætlun í betra form en verið hefur á síðasta áratug því að það skiptir gríðarlega miklu máli. Það skiptir líka miklu máli að við stígum varlega til jarðar vegna þess að þetta eru óafturkræfar framkvæmdir og við þurfum að vanda okkur vel í þessum verkefnum.