Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[17:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í rauninni ekki; í rauninni er þetta óbreytt að vel flestu leyti, að því er manni sýnist. En það sem bættist við var skylda stjórnvalda til að koma með orkuáætlun, það er reyndar eldra, en það var hluti af heildarpakkanum, búið var að samþykkja það fyrr, gera það í orkuáætluninni, og þarna er tæki eins og alþjónustukvöð sem hægt er að leggja á til þess að passa að rafmagn berist til þeirra aðila sem stjórnvöld segjast ætla að bera ábyrgð á. Áður en það var gátu stjórnvöld í raun gert þetta samkvæmt geðþótta sínum. Núna er þetta orðin skylda, þar er munurinn á. Það sem vantar er útskýring á því hvernig þau ætla að sinna þessari skyldu. Eftir því sem ég best veit er sú stefna ekki til, alla vega ekki á það skýran hátt að almenningur hér úti geti nálgast hana og fullvissað sig um að orkuöryggi íbúa, hvar sem þeir búa á landinu, sé tryggt til framtíðar. Eins og talað hefur verið um hér í umræðunni erum við ekki einu sinni með þrífösun um allt landið og orkuöryggi eins og það var á Norðausturlandi núna og á Vestfjörðum er mjög skrýtið.

Ein fyrsta reynsla mín sem þingmanns, þá var ég varaþingmaður, var að vera á fundi í nefnd þar sem Landsnet var bókstaflega að grátbiðja um áætlanir frá stjórnvöldum til að geta lagt línur, hvert það ætti að leggja þær. Það var rosalega lítill áhugi hjá stjórnarliðum á þeim fundi, fannst mér, og ekki hefur mikið gerst síðan. Þetta var á kjörtímabilinu 2013–2016 og við erum einhvern veginn enn að súpa seyðið af aðgerðaleysinu þá, þrátt fyrir að það hafi verið vel vitað á þeim tíma að þetta væru verkefni sem nauðsynlegt væri að leggjast í.