Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Fyrir rétt rúmu ári var ég hér í þessum ræðustól að kynna nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar. Sem framsögumaður þess álits í þessu gríðarlega mikilvæga máli sem Píratar hafa látið sig varða gegnum tíðina, máli sem við fögnuðum ákaft að hæstv. dómsmálaráðherra þess tíma hefði lagt fram, þ.e. að leggja blátt bann við stafrænu kynferðisofbeldi og setja það inn í hegningarlögin okkar. Þetta var gríðarlega mikilvægt skref, skref sem var stigið eftir mikla grasrótarbaráttu, eftir Free the Nipple, eftir #metoo, eftir mikið ákall í samfélaginu eftir því að kynferðisleg friðhelgi yrði vernduð, einnig í hinum stafræna heimi. Ég var gríðarlega stolt af því að hafa fengið að mæla fyrir sameiginlegu nefndaráliti allrar allsherjar- og menntamálanefndar til að bregðast við þeim ófögnuði sem stafrænt kynferðisofbeldi sannarlega er.

Við vinnslu þessa máls var líka farið í það að uppfæra friðhelgiskafla almennra hegningarlaga og var ákveðið að til að vernda betur friðhelgi einkalífsins hjá borgurum þessa lands skyldu brot á þessum ákvæðum jafnvel varða opinbera ákæru, sem þau höfðu ekki gert áður. Allt var þetta ætlað til þess að vernda kynferðislega friðhelgi fólks vegna mikils ákalls í samfélaginu. Ég sá þá það sem er að raungerast nú; möguleikana á að þessi ákvæði 228. gr. og 9. gr. almennra hegningarlaga yrðu misnotuð til þess að hafa kælingaráhrif á frjálsa fjölmiðlun á Íslandi. Ég taldi, og sá það í nefndaráliti okkar allra í allsherjar- og menntamálanefnd, okkur hafa tekið fyrir það með því að undanskilja fjölmiðla þessu ákvæði. Nú hefur lögreglan á Akureyri ákveðið að hunsa þann skýra vilja löggjafans. Það hryggir mig (Forseti hringir.) og skemmir fyrir því stolti sem ég fann fyrir þegar ég stóð hér að mæla fyrir þessu nefndaráliti.