Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Um efnisatriði málsins eins og þau liggja fyrir hér held ég að sé ekkert nema gott að segja. En mig langar til að biðja hæstv. ráðherrann að fara aðeins dýpra yfir það hvað orsakar það að grásleppan er tekin út úr málinu. Vissulega var ekki full sátt um það en hæstv. ráðherra hefur nú hingað til ekki haft orð á sér fyrir að heykjast þegar umdeild mál koma fyrir þingið og þarfnast afgreiðslu.

Getur hæstv. ráðherra útskýrt annars vegar hvað veldur þessari miklu breytingu á frumvarpinu og hvernig sér hæstv. ráðherra hins vegar fyrir sér að grásleppuveiðar og kerfi grásleppuveiða verði á þessu ári? Er þá horft til þess að það verði óbreytt frá því sem verið hefur? Með hvaða hætti sér hæstv. ráðherra fyrir sér að mæta t.d. þeirri stöðu sem kom upp í hittiðfyrra, því nú byrja veiðimenn veiðar á mismunandi tíma ársins, þegar menn á Vesturlandi, Vestfjörðum og Breiðafirði voru í rauninni ekki byrjaðir þegar heildarkvótinn var uppveiddur.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra hvað veldur því að ráðherrann ákveður að sleppa því að grásleppan sé hér undir og án þess að mér vitanlega sé flaggað neinni annarri aðgerð sem snýr að veiðireglum þess stofns.