Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[14:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi nýja deilistofna. Við vitum að mikil verðmæti eru fólgin í uppsjávarstofnum og náttúrlega makrílnum sem kom hressilega inn í landhelgi okkar 2010 eða 2011. Ótrúleg verðmæti sköpuðust.

Ég vil frekar mótmæla því að við eigum að bíða eftir nýjum deilistofni. Við í Viðreisn höfum lagt fram frumvarp um það einmitt að stíga þessi skref. Þá tökum við þessa nýju stofna, makríl, sem við skulum taka sem tilraun í x ár, tíu ár, tímabundna samninga, taka hluta og setja á markað til að fá eðlilegt, sanngjarnt verð með gegnsæi að leiðarljósi. Þetta hefur reyndar líka verið fellt af ríkisstjórnarflokkunum, Vinstri grænum, Framsókn og Sjálfstæðisflokki.

Það sem ég greini hér er að það er samt veikur vilji til þess að fara einhverja leið, til þess að hlusta m.a. á þessi 80% sem segja nei við óbreyttu ástandi en ekki hlusta á þau 7% sem öllu virðast ráða í fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ég vil hvetja hv. þingmenn áfram til að fá félaga sína til að stíga þetta skref. Já, þetta er agnarsmátt skref. En skref er það samt sem hv. þingmaður er að tala um og ýta á að gerðir verði a.m.k. tímabundnir samningar um okkar sameiginlegu auðlind. Ég vil hvetja hv. þingmann til dáða og til að tala við sitt fólk.