Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[15:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mun auðlindaákvæði með tímabundnum samningum leiða til þess að kvótakerfið verði þá andstætt stjórnarskrá? Nei, það mun það ekki gera. Það sem fylgir því hins vegar, eins og kom m.a. fram í auðlindanefndinni frá árinu 2000, að vera með svona auðlindaákvæði í stjórnarskrá er að það leggst skylda á þingið að koma með lagabreytingar á kvótakerfinu. Við erum með okkar tillögur þar. Við höfum verið að tala um tímabindingu samninga til 20, 25 ára. Undir eins og tímabundnir samningar eru komnir inn í auðlindaákvæðið í stjórnarskrá er búið að tryggja rétt þjóðarinnar. Þá er ekki gert eins og í dag þar sem útgerðum er afhentur ótímabundið einkarétturinn á veiðiheimildum. Þannig er það í dag, eina atvinnugreinin sem nýtir auðlindir þjóðarinnar sem ekki eru gerðir tímabundnir samningar um. Þannig að með auðlindaákvæðið, sem ég vona að við náum að afgreiða á þessu kjörtímabili, ef Sjálfstæðisflokkurinn leyfir, við munum þurfa að taka aðeins til í fiskveiðilöggjöfinni til að samræma hana auðlindaákvæðinu. Það er risa hagsmunamál að tryggja rétt þjóðarinnar.

Hinni spurningunni sem tengist krónunni ætla ég að svara á eftir. Ég ætla ekki að taka 15 sekúndur í það að svara varðandi íslensku krónuna. Ég held að menn ættu einfaldlega að kíkja á bankamarkaðinn og fjármálamarkaðinn. Þar er fákeppni. Af hverju er fákeppni? Það er út af íslensku krónunni. Það vill enginn koma hingað frá erlendum fyrirtækjum og stunda hér (Forseti hringir.) fjármála- og tryggingastarfsemi meðan við búum við svona ótryggan gjaldmiðil. (Forseti hringir.) Það leiðir síðan af sér óheyrilegt vaxtaokur á íslenskar fjölskyldur og fyrirtæki.