Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[19:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þegar ég les nefndarálit hv. þingmanns þá finnst mér svolítið — hann talar um nútíma-Nostradamus sem búi á Hagstofunni. Mér finnst, þegar hv. þingmaður greinir þetta á sinn ágæta hátt með þessum töluliðum, bæði gjaldastefnuna og tekjustefnuna, að hann sé orðinn hálfgerður Nostradamus vegna þess að í greinargerð með fjármálastefnunni, og ég tek tilvitnanir úr nefndaráliti hv. þingmanns varðandi framtíðarvandamál, segir:

„Á komandi árum verður áfram unnið að endurbótum á skattkerfinu þannig að tekjuöflun hins opinbera nægi til að standa undir verkefnum þess.“

Það er áætlun um að fara að gera eitthvað, það er ekki stefna. Það á að fara að gera þetta á komandi árum.

Það er líka í 2. lið, varðandi samdrátt í tekjum ríkissjóðs af samgöngum. Þar segir: „Stefnt er að heildarendurskoðun á þessum hluta skattkerfisins til að tryggja sambærilegar skatttekjur af ökutækjum.“ Það er stefnt á að gera eitthvað en það er ekki stefna. Ef þú ætlar að gera eitthvað þá ertu ekki að gera það, þú ætlar bara að gera það, það er á áætlun, þannig að mér finnst þetta nánast vera stefna um stefnu.

Svo getum við haldið áfram, t.d. um loftslagsmálin. Það á að notast við jákvæða hvata. Það er ekki stefna að nota jákvæða hvata. Hverjir eru hvatarnir? Það er stefnan. Þá ertu með stefnu, þá ertu með hvatningu, „initiative“ — fyrirgefið, hvata til að gera eitthvað ákveðið, en það er ekki sagt hverjir þeir eru. Það er nákvæmlega sama með öldrun þjóðarinnar, þar er verið að ræða hægfara þróun, en það er ekkert sagt hvernig eigi að taka á málinu.

Ég les fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar, þessa þingmeirihluta, sem stefnulaust plagg. Ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki bara að breyta nafninu. Ég tel að næsta fjármálastefna komi í kjölfar kjarasamninganna, að þar verði mörkuð stefna og þar ætti raunverulega að endurskoða fjármálastefnuna, þegar aðilar vinnumarkaðarins verða búnir að komast að samkomulagi. Þar mun verða óskað eftir útspili ríkisstjórnarinnar og þá sjáum við fjármálastefnu sem mark er á takandi.