Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[20:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum auðvitað í þessu sveiflukennda hagkerfi og komumst ekki hjá því. Við erum svo lítið hagkerfi og það fer alltaf eftir því hver langtímahagvöxtur er í einhverri jöfnu hér. Það er eitthvað sem við þekkjum ekki mjög vel á Íslandi, að vera með hagvöxt sem seytlar svona rólega. Það er þetta undirliggjandi vandamál, eins og hv. þingmaður nefnir, og það þýðir að á hverjum tíma, hjá hverri ríkisstjórn, geta forsendurnar breyst, hvort heldur varðar útgjöld eða tekjur. Maður leysir það ekki í eitt skipti fyrir öll vegna þess að það eru alltaf ný verkefni sem þarf að takast á við á hverjum tíma. Það sem hv. þingmaður er að tala um, að við getum siglt svona þægilegan sjó, þrátt fyrir að það komi einhverjar örlitlar dýfur, er varla mögulegt í jafn litlu hagkerfi og við erum, hagkerfi sem verður alltaf talsvert sveiflukennt.