Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[21:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gefur mér frábært tækifæri til að ræða um áhugavert mál sem er bankaskattur og skattur á ofurhagnað. Hækkun bankaskatts er ekki góð hugmynd að mínu viti. Ég sat á síðasta kjörtímabili í efnahags- og viðskiptanefnd og eitt af því sem við fjöllum aðeins um þá í upphafi var einmitt framtíð íslensks fjármálamarkaðs. Þar var þetta sérstaklega tekið fram, þetta hét hvítbók held ég örugglega. Þar var ein af tillögunum að lækka bankaskatt og voru nefnd fyrir því mörg rök því að við höfum svolítið viljað horfa á samkeppnismarkaðinn eða á nærsamfélagið hvað þetta varðar og bankaskatturinn hafði vissulega þau áhrif að fjármálastofnanir hér á landi voru undir öðrum hatti en erlendir bankar. Staðan var þá á þeim tíma líka að ríkið átti að fullu tvo af þremur bönkum sem er ekki alveg staðan í dag og er vonandi að fara að breytast mjög hratt þegar við klárum sölu á Íslandsbanka. En bankaskatturinn er eitt af þeim fyrirbrigðum sem var einmitt talið óæskilegt því að við viljum gjarnan að íslenskir bankar starfi með einhverjum hætt í sama umhverfi og erlendir bankar og mörg okkar hefur jafnframt dreymt um að við gætum séð hér frekari samkeppni á bankamarkaði, að erlendir aðilar myndu vilja koma inn á þann markað. Ein af ástæðunum fyrir því að bankaskatturinn var ekki talinn mjög æskileg þróun var sú að þeir eru ekki lagðir á lífeyrissjóði þannig að samkeppnisstaða lífeyrissjóða banka þegar kom að fasteignalánum var ekki jöfn. Ég held því að það hafi frekar verið góð aðgerð að lækka bankaskattinn.

Hv. þingmaður spurði mig líka um skatt á ofurhagnað og ég verð að viðurkenna að mér finnst sú umræða (Forseti hringir.) á köflum mjög popúlísk því að hvað er ofurhagnaður? Það er líka rosalega gott þegar við ræðum (Forseti hringir.) hagnaðartölur eða arðgreiðslur að fólk horfi á arðsemi (Forseti hringir.) af eigin fé. Hvaða fé liggur þarna inni þegar fólk er að tala um mikla arðsemi? (Gripið fram í: Spurðu ráðherra.)