152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[15:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa sérstöku umræðu sem hér á sér stað og sömuleiðis þá vinnu sem sett hefur verið af stað af hendi stjórnvalda að beiðni hæstv. ráðherra til að skoða það sem snýr að blóðmerahaldi hér á landi. Við þekkjum það í gegnum tíðina að reglulega vakna áhyggjur af orðsporsáhættu Íslands. Við þekkjum það til langs tíma í gegnum hvalveiðar Íslendinga og fleira mætti nefna, þar sem starfsemi hér heima fyrir hefur vissulega áhrif og á köflum neikvæð áhrif á ásýnd landsins utan frá. En eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á hér áðan sýna tölurnar sem við sjáum, sérstaklega í tengslum við ferðaþjónustu og útflutning hesta, okkur ekki neikvæða þróun í þeim efnum ef við tökum út fyrir sviga það sem blasir auðvitað við að eru áhrif af þeim faraldri sem við höfum glímt við undanfarin misseri.

Ég vona bara að sú vinna sem er í gangi skapi ákveðinn grundvöll undir þessa starfsemi þannig að þar verði dýravelferð og góð framganga þeirra sem þessa starfsemi stunda í fyrirrúmi. Aðilar sem eru efins um þetta eru búnir að setja fram býsna skynsamleg sjónarmið í þessum efnum, eins og t.d. dr. Ewald Isenbugel, fyrrverandi yfirmaður dýragarðsins í Zürich, sem skrifaði hér grein nýlega. Ég skil útfærsluna þannig í þeim efnum að verið sé að vara við því að menn gangi of langt hvað nýtingu þessara (Forseti hringir.) blóðtökumöguleika varðar. Við þurfum að finna (Forseti hringir.) það jafnvægi sem bæði er hryssunum fyrir bestu og að bændur geti áfram sinnt þessari starfsemi.