152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

viðspyrnustyrkir.

291. mál
[17:13]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Forseti. Fátt annað hefur verið á dagskrá efnahags- og viðskiptanefndar á þessu þingi en styrkir til fyrirtækja og er það vel, því þau þurfa aðstoð til að lifa af í heimsfaraldri. Engu að síður eru þó til fyrirtæki sem hafa borið skarðan hlut frá borði og það eru lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu. Það mætti jafnvel halda að ríkisstjórnin líti á það sem sitt hlutverk að vinna að hagræðingu í ferðaþjónustu með því að styðja frekar við stór fyrirtæki en láta þau litlu sigla sinn sjó. Ef eitthvað er inngrip í markaði, þá er þetta það. Því það er síður en svo hlutverk ríkisstjórnarinnar að hlutast til á markaðnum með þessum hætti. Engu að síður er það staðreynd að hjálp hefur borist litlum fyrirtækjum í ferðaþjónustu bæði seint og illa. Samkvæmt Samstöðuhópi einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu taka málin allt of langan tíma. Þessi fyrirtæki, sem oftar en ekki eru rekin af fjölskyldum og hafa yfirleitt ekki stóra sjóði að ganga í, eru komin í veruleg vandræði og eigendur jafnvel farnir að ganga í sparibauka barna sinna í trausti þess að bráðum komi einhver ríkisaðstoð og betri tíð. Þetta eru ekki fyrirtæki sem reistu sér hurðarás um öxl því að þau fyrirtæki eru löngu fallin. Þetta eru fyrirtæki sem eru vel rekin og hefðu blómstrað ef ekki hefði komið heimsfaraldur. Þau eru þannig sannarlega lífvænleg þó að þau séu kannski ekki að standast þessa langvarandi þrekraun sem staðið hefur í rúm tvö ár. Þessi fyrirtæki finna sig nú í því sem á ensku er kallað, með leyfi forseta, „catch-22“ stöðu. Þau hafa haft litlar og jafnvel engar tekjur í allt of langan tíma og geta ekki haldið áfram svona án aðstoðar. Skuldir eru farnar að aukast verulega, eignir að brenna upp, þannig að ekki er hægt að borga laun og þótt reynt sé að halda ráðningarsambandi við starfsmenn hefur það ekki alltaf tekist og/eða mun ekki takast um næstu mánaðamót. Sumarið lítur hins vegar vel út, en án aðstoðar munu mörg þessara fyrirtækja ekki geta gert nauðsynlegar ráðstafanir, hvað þá ráðið fólk til starfa og eru jafnvel í staðinn að skipuleggja frekari uppsagnir. Það er gott og rétt að styðja við fyrirtæki, en það þarf líka að styðja við þau sem minni eru og jafnvel rekin af fjölskyldum í tengslum við heimili þeirra.

Á sama hátt og fjölskyldufyrirtækjum hefur ekki verið sinnt, hefur heimilum landsins ekki heldur verið sinnt. Ég vil aðeins ræða um málefni þeirra því að landið er ekki byggt upp af fyrirtækjum, heldur heimilum. Og um þau hefur ekkert verið rætt í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég ætla því að nota tækifærið hér. Heimilin eru bara látin sigla sinn sjó og alveg sama hversu mikið gefur á bátinn, þá eiga þau bara að halda áfram að róa og fá í mesta lagi hripleka fötu til að ausa með, sem ekkert gerir nema kannski að seinka aðeins hinu óumflýjanlega.

Í grein sem við Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifuðum í apríl 2020 og heitir „Erum við öll í sama báti“ stendur, með leyfi forseta:

„Það hvernig við rísum upp úr erfiðleikunum sem fram undan eru, ræðst af því sem við gerum í dag og þess vegna skipta áherslur stjórnvalda og hvað þau hafa í forgangi, gríðarlega miklu máli. Mun ríkisstjórnin úthluta heimilunum björgunarvesti og plássi í björgunarbátnum eða láta þau troða marvaðann í veikri von um að bankarnir bjargi þeim frá drukknun? Eða fá þau kannski sama hripleka hrákadallinn og síðast …?“

Skömmu síðar í greininni er fyrirsögnin „Bankarnir eiga að vera í sama báti og við hin“ og svo fylgdi eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Núverandi ríkisstjórn ber skylda til að verja heimilin og setja hagsmuni þeirra framar hagsmunum fjármálafyrirtækja.

Það er ekki lögmál að þegar hringrás efnahagslífsins rofnar, eins og núna er að gerast, að þá geti bankarnir bara beðið með opinn kjaftinn eftir því að fyrirtækin og heimilin renni ofan í þá, eins og reynslan hefur sýnt.

Ef við erum öll á sama báti þurfa bankarnir að vera í honum líka.

Þetta eru stöndugustu fyrirtækin í landinu og hafa hagnast um nær 700 milljarða frá síðasta hruni“ — það var þá, núna er það meira en 1.000 — „og þeir, ásamt lífeyrissjóðunum, geta betur borið tap en nokkrir aðrir á Íslandi.

Það skiptir öllu máli að sem flest fyrirtæki geti risið sem fyrst upp að nýju þegar þar að kemur og þá skiptir miklu að þau séu ekki með íþyngjandi bagga á bakinu. Þá verður það engum til góðs að þau séu komin í hendur bankanna eða undir náð og miskunn þeirra með hvort þau lifi eða deyi, enda kom það skýrt í ljós eftir síðasta hrun að bönkunum er ekki treystandi fyrir þeirri ábyrgð.

Það sama má segja um heimilin. Ef fólk fer að missa heimili sín í tugþúsundatali eins og eftir hrun, hverjum væri það til góðs? Hvert ætti allt það fólk að fara? Á þá að stofna fleiri Gamma leigufélög? Erum við ekki búin að prófa það með skelfilegum árangri?

Málið er að það eru allir að fara að tapa, og bankarnir eiga ekki að vera undanþegnir því, enda eiga þeir að vera í sama bát og við hin.“

Það er komið í ljós að áhyggjur okkar af því hvernig ríkisstjórnin myndi verja heimilin voru ekki úr lausu lofti gripnar. Ekkert hefur verið gert fyrir heimilin. Enn og aftur er bara litið á þau sem pínulítil peð í Matadori markaðarins eða kannski væri réttara að segja fjárhættuspili hans. Verðbólga hækkar og hækkar, en það má ekki einu sinni taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Til að gæta sanngirni þá nefndi formaður Framsóknarflokksins í gær að það ætti að gera. Við hann vil ég segja að þau ættu að vera hæg heimatökin hjá honum sem innviðaráðherra í ríkisstjórninni og formaður eins ríkisstjórnarflokkanna. Ég mun fagna þessu þegar ég sé þetta verða að veruleika og bendi hæstv. ráðherra á að frumvarp mitt og Flokks fólksins um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölunni bíður 1. umr. í þinginu og vænti stuðnings hans við það.

Ekki hefur verið gerð nokkur einasta krafa á bankana um að þeir dragi úr hagnaðarkröfum sínum, sem eru algjörlega úr öllu korti, eins og hagnaðartölur þeirra bera skýrt vitni um. Ríkið á einn banka og stóran hlut í öðrum. Það þarf að krefja bankana um að sýna samfélagslega ábyrgð og lækka vaxtaálögur sínar, enda sýnir hagnaður þeirra að þeir geta ekki með nokkru móti réttlætt að hækka álögur á viðskiptavini sína. Það eina sem heimilunum hefur verið boðið upp á er að nýta séreignarsparnaðinn sinn. Heimilunum er sem sagt boðið upp á að nota sína eigin peninga. Peninga sem eiga að vera til efri áranna og eru ekki aðfararhæfir, fari allt á versta veg. Þannig að fari allt á versta veg hjá einstaklingnum þá getur hann bæði tapað heimili sínu og því sem hann hefur lagt fyrir til eftir áranna. Og ekki nóg með það, heldur þarf líka að borga skatt af séreignarsparnaðinum þegar hann er innleystur. Það er kannski ekkert að því að þetta sé skattskylt, eða er a.m.k. önnur umræða, en ríkissjóður hefur þannig ekki borið neinn kostnað af úrræðum fyrir heimilin, heldur þvert á móti hagnast af skattgreiðslum séreignarsparnaðarins.

Berum þetta saman við fyrirtækin. Framlög til þeirra koma beint úr ríkissjóði, þau borga enga skatta af þeim og greiða sér jafnvel arð, eins og umtalað er, eftir að hafa þegið aðstoðina. Ég er ekki að sjá eftir hjálpinni til fyrirtækjanna, síður en svo, en vil minna á að líka þarf að líta til heimilanna og verja þau fyrir afleiðingum heimsfaraldurs en það er bara alls ekki gert. Að sjálfsögðu kemur aðstoð við fyrirtækin sér vel fyrir þau heimili sem að þeim koma eða hjá þeim vinna. En ég er ekki einu sinni að fara fram á bein framlög úr ríkissjóði til heimilanna. Ég er að fara fram á vernd. Verðbólga og vaxtahækkanir leggjast þungt á heimilin ekkert síður en fyrirtæki og það hefur ekkert verið gert til að bregðast við því, á meðan bankarnir hagnast sem aldrei fyrr en eru engu að síður að hækka vexti á heimili sem mörg hver berjast í bökkum Og í þessu ástandi eru vextir hækkaðir og þannig er aukið flæði fjár til bankanna eins og þeir séu ekki enn búnir að fá nóg. Allt er þetta að sjálfsögðu gert undir þeim formerkjum að verið sé að berjast við verðbólgu. En sú röksemdarfærsla gengur engan veginn upp, því: Verðbólgan er ekki vegna þenslu hér á landi og því ekki hægt að slá á hana með hækkun vaxta. Hækkun húsnæðiskostnaðar er miklu verri fyrir heimilin en hækkun vöruverðs. Vandinn á húsnæðismarkaði er ekki venjulegum fjölskyldum að kenna og óforsvaranlegt að láta margra ára klúður bitna á fólki sem ekki er í fasteignaviðskiptum. Hækkun vaxta er ekkert annað en stórkostleg eignatilfærsla frá fólkinu til bankanna. Það er engin leið að réttlæta að fyrirtæki með milljarða hagnað hækki álögur á viðskiptavini sína.

Í stuttu máli þá er kominn tími til að Seðlabankinn, ríkisstjórnin, sveitarfélög og aðrir sem klúðrað hafa málum, taki ábyrgð á eigin klúðri og hreinsi sjálf upp sinn eigin skít án þess að velta honum yfir á heimilin. Þetta gengur ekki lengur. Ríkisstjórnin flýtur enn og aftur sofandi að feigðarósi og virðist ekki gera sér neina grein fyrir samhengi hlutanna, t.d. hvernig kjaraviðræður verði í haust verði ekkert gert til að verja heimilin fyrir því force majeure ástandi sem skapast hefur vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Aðgerðirnar sem þyrfti að ráðast í eru hvorki margar né flóknar eða dýrar. Ríkisstjórnin þarf í aðalatriðum að ráðast í þrennar aðgerðir. Hún þarf að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, krefja bankana um að sýna samfélagslega ábyrgð og frysta verðtryggingu á lánum og leigu í a.m.k. eitt ár.

Förum aðeins nánar yfir ástæður og áhrif þessara einföldu aðgerða:

1. Taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Verðbólgan er 5,7% en án húsnæðisliðar væri hún 3,7%. Með þessari einföldu aðgerð væri slegið á verðbólguna og hennar keðjuverkandi áhrif eins og t.d. hækkandi leiguverð og vexti.

2. Krefja bankanna um að sýna samfélagslega ábyrgð, þ.e. lækka vexti og álögur á viðskiptavini og minnka arðsemiskröfur.

3. Frysta verðtryggingu á lánum og leigu allt þetta ár. Frumvarp þess efnis er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Það er eðlileg krafa að bæði bankar og leigusalar séu ekki einir undanþegnir tekjufalli vegna afleiðinga heimsfaraldurs og óeðlilegt að þeir hagnist á ástandinu. Heimilin, sérstaklega á leigumarkaði, standa ekki undir þessum hækkunum.

Þetta er það allra minnsta sem hægt er að gera til að verja heimilin sem verst standa. Bara þessar einföldu ráðstafanir myndu milda höggið og erfiðleika heimilanna og þannig liðka fyrir kjaraviðræðum sem verða nógu erfiðar samt.

Með leyfi forseta, ætla ég að leyfa mér að lesa niðurlag fyrrnefndar greinar okkar Ragnars Þórs, „Erum við öll í sama báti?“

„Við sem höfum annaðhvort gengið í gegnum þá ógn sem fylgir fyrst áhyggjunum af heimilismissi og svo heimilismissinum sjálfum, eða höfum verið í samskiptum við þá sem gengið hafa í gegnum þetta ömurlega og erfiða ferli, vitum hversu gríðarlegt álag fylgir því og að margir hafa þegar misst heilsuna vegna þess. […]

Eigum við ekki að sameinast um að þegar fer að sjá til sólar þá fái hvert einasta fyrirtæki og hvert einasta heimili að vakna til nýs lífs og halda áfram þar sem frá var horfið án þess að sitja upp með þunga bagga sem refsingu fyrir eitthvað sem þau höfðu ekkert um að segja og gátu ekkert gert að?

Veitum heimilunum og fyrirtækjunum skjól undir öruggu „þaki“ og verum öll saman í sama bátnum.“

Svo mörg voru þau orð árið 2020 og þau standa algjörlega fyrir sínu enn þann dag í dag.