152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

fyrirhuguð rafvopnavæðing lögreglunnar.

[10:49]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Í viðtölum við fjölmiðla undanfarið, nú síðast 16. febrúar, hefur hæstv. dómsmálaráðherra sagt að hann sé, ásamt lögreglustjórum og Landssambandi lögreglumanna, að skoða hvort rafbyssur verði teknar upp við löggæslustörf hér á landi. Meðal ástæðna segir hann að verkefnum lögreglu hefur fjölgað þar sem vopn komi við sögu og því sé nauðsynlegt að lögreglan geti brugðist við með því sem hann kallar viðeigandi hætti. Piparúði eða kylfa dugi ekki til heldur þurfi að taka upp rafbyssur. Samtökin Amnesty International hafa þegar varað við notkun slíkra vopna hér á landi þar sem alvarleg slys og dauðsföll hafa hlotist af notkun þeirra. Rannsóknir á notkun slíkra vopna sýna t.d. að í Bandaríkjunum hafa á rúmlega tíu ára tímabili verið skráð 500 dauðsföll af völdum slíkra vopna og að 90% þeirra sem hafa látist hafi verið óvopnuð. Notkun þeirra er sérstaklega hættuleg gagnvart fólki með undirliggjandi sjúkdóma, sem er oftast engin leið fyrir lögreglu að vita hvort séu til staðar. Möguleikinn á að misbeita þessum vopnum er jafnvel meiri en á venjulegum byssum því að notendur eru oft sannfærður um skaðleysi þeirra. Það má líka ekki gleyma því að þeir einstaklingar sem eru hvað oftast skotnir með rafbyssu af lögreglu í löndum þar sem notkun þeirra er útbreidd eru einstaklingar með undirliggjandi geðsjúkdóma eða jafnvel í geðrofi. Ég spyr því ráðherra: Hvaða forsendur, greiningar og áhættumat mun hann leggja til grundvallar við ákvörðun um hvort taka skuli upp rafbyssur við löggæslustörf hér á landi?