Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

296. mál
[16:51]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Mig langar til að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur, fyrir að hefja þessa umræðu. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargóða yfirferð og skýr svör. Mér fannst tónninn í spurningum hv. þingmanns allt að því neikvæður, líkt og hún teldi samgönguuppbyggingu og samgöngusáttmála einkamál Reykjavíkurborgar. Auðvitað er ætlunin að standa við sáttmálann. Til þess þarf auðvitað að vera góð sátt við Betri samgöngur, við Vegagerðina og sveitarfélögin öll á höfuðborgarsvæðinu. En það vakti athygli mína hver svör ráðherrans voru um að tæknin til snjallvæðingar hefði þegar verið innleidd. Við vitum að staðan á breytingu á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar er sú að það er beðið eftir tillögum frá Vegagerðinni og lagning Arnarnesvegar að Breiðholtsbraut er í auglýsingu. Allir þeir þættir sem hv. þingmaður er að spyrja um, (Forseti hringir.) og málið stendur mér líka nærri sem þingmaður Reykjavíkur, eru nú í fínasta farvegi, að mér sýnist.