152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

leigubifreiðaakstur.

369. mál
[16:08]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið þó að mér finnist að spurningu minni hafi kannski ekki endilega verið svarað. Ég átta mig ekki alveg á því hver ástæðan er fyrir því að ekki hefur verið bætt úr þessu. Mig langaði aðeins að minnast á það sem var nefnt hérna í þingsalnum undir svari hv. þingmanns, sem er það að jú, Hreyfill er kominn með app. Það er mjög langt síðan, það eru mörg ár síðan. Þetta app er fullkomlega ónothæft. Það er óáreiðanlegt, það er óaðgengilegt. Það hefur gert það að verkum núna í þessu ástandi sem verið hefur undanfarið — ég nota þetta app mikið af því að ég hef trú á því og er alltaf að bíða eftir að það verði lagað og uppfært. Hreyfill virðist vera meðvitaður um að þetta sé gagnslaust app en það er ekkert gert í því. Það er enginn hvati til þess að gera neitt í því. Ég hef þurft að hringja á leigubílastöðina til að vita hvað er að gerast vegna þess að appið er ýmist frosið, gefur mér rangar upplýsingar eða virkar einfaldlega ekki að einhverju öðru leyti.

Þannig að mig langar aðeins að ítreka spurninguna, sem er: Ef það er ekkert mál að leysa þessi vandamál, hvers vegna hefur það ekki verið gert nú þegar? Og svo langar mig líka að nefna það sem ég held að sé stórt vandamál hvað þetta varðar — þó að ég sé ekki með töfralausnina þá tel ég alveg ljóst að það kerfi sem við erum með núna virkar ekki — og það er varðandi framboð og eftirspurn. Eftirspurn eftir leigubílum er, held ég, gríðarlega misjöfn eftir tíma sólarhringsins og fleira. Það er alveg ljóst að það er umframframboð að degi til, en kannski ekki á álagstímum, en það er verulega mikil og verulega alvarleg umframeftirspurn á álagstímum. Þannig að ég ætla bara að freista þess að endurtaka spurningu mína: Hvernig telur hv. þingmaður unnt að leysa þetta með öðrum hætti? Og hvers vegna hefur það ekki nú þegar verið gert þegar þetta er vandi sem hefur verið uppi í áraraðir?