152. löggjafarþing — 44. fundur,  1. mars 2022.

hegningarlög.

389. mál
[17:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir frumvarpið. Það er mjög gott að það sé komið fram. Það veitir ekki af að taka vel og vendilega á þessum málum og um þannig mál að ræða að okkur ber að tryggja að refsingar séu strangar. Þarna er um að ræða allt að sex ára fangelsi fyrir að misnota börn gróflega og það er þá líka tengt efni á netinu. Nú virðist það vera lenskan í dómum að hámarksrefsingum er ekki beitt og þess vegna spyr ég, í sambandi við grófustu brotin, sérstaklega í ljósi þess hversu alvarlegar afleiðingarnar eru fyrir börn, hvort ekki ætti að setja inn að lágmarki sex ára fangelsi fyrir grófustu brotin. Þeir sem brjóta á börnum eru yfirleitt fullorðnir menn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera og eiga sér engar málsbætur. Spurningin er, til að tryggja að fælingarmátturinn séu nógu mikill og reyna að vernda börnin eins og hægt er, hvort ekki sé þörf á því að herða refsingar enn frekar og jafnvel að tryggja í frumvarpinu að það sé að lágmarki sex ára fangelsi fyrir grófustu brotin í þessum málum.