152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vil taka eindregið undir orð þeirra tveggja þingmanna sem töluðu á undan mér. Mér skilst að það sé ekkert vitað hvernig verður með umsóknir um ríkisborgararétt sem bárust eftir 1. október. Þetta er ekki bara bagalegt, þetta er hneisa og þetta er alvarlegt fyrir þingið. Við viljum að við séum tekin alvarlega og við þurfum stuðning forseta þingsins til þess að svo verði. Ég veit ekki betur en að allir flokkar á þingi hafi tekið undir þessa ósk nema einn stjórnarflokkur, þannig að ég vil hvetja hæstv. forseta til dáða. Það er margt undir hér, ekki bara virðing þingsins heldur einstaklinga sem þurfa eðlilega svör, að sjá það að við sýnum mennsku og mannúð í umfjöllun um þá einstaklinga sem sækja hér um íslenskan ríkisborgararétt. Við verðum að fylgja eftir umhverfi okkar, reglum o.s.frv. og þá verður þingið að geta sinnt skyldu sinni þegar að því kemur. Ég vil brýna þetta við hæstv. forseta og hvetja hann til dáða. Við þurfum á þínum stuðningi að halda.