152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

ummæli dómsmálaráðherra um flóttamenn.

[11:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Hæstv. dómsmálaráðherra lýsti yfir sérstökum áhyggjum af því að flóttafólk annars staðar frá en frá Úkraínu misnoti sér þær tilslakanir sem nágrannaríki Úkraínu hafa gert á landamærum sínum til að komast yfir landamærin. Orðrétt sagði ráðherrann, með leyfi forseta:

„Mörg lönd sem hafa áhyggjur af því að fólk sem hefur ekki heilindin með sér sé að nota þetta tækifæri til að komast inn í Evrópu.“

Sami ráðherra hefur ekki einungis efast um heilindi þess flóttafólks sem nú leggur á sig mikið erfiði við að komast frá Úkraínu og í skjól, hann beinir einnig sjónum sínum og spjótum að flóttafólki sem fyrir er á Íslandi og sakar það um að teppa veg Úkraínumanna í skjól til Íslands, raunar að það sé að koma í veg fyrir að hægt sé að taka við flóttafólki til Íslands frá Úkraínu. Hann vekur athygli á neyðarástandi hjá Útlendingastofnun og kyndir undir andúð gagnvart þessum hópum, egnir þá upp hvor á móti öðrum.

Ég hef séð viðtal við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra þar sem hann heldur því til haga að Útlendingastofnun muni ekki standa í vegi fyrir því að tekið verði á móti flóttafólki frá Úkraínu. Ég tek því sem svo að ráðherra sé ósammála fullyrðingum hæstv. dómsmálaráðherra, a.m.k. hvað það varðar að hér sé verið að teppa þjónustu. Ég er ekki að óska eftir afstöðu ráðherrans gagnvart þessum staðhæfingum, ég óska eftir því að ráðherrann tjái sig um það þegar æðsti yfirmaður útlendingamála, sem deilir þessum verkefnum með hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, tjáir sig með þessum hætti um þessa viðkvæmu hópa eins og raun ber vitni. Ber ekki að mótmæla honum af hálfu stjórnarliða? Á þetta hundaflaututal að fá að viðgangast algjörlega óáreitt af stjórnarliðum? (Forseti hringir.) Má þetta bara í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur?