152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[17:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Innrás Rússa í Úkraínu er hernaður alræðisins gegn lýðræðinu. Þess vegna snertir hann okkur ekki bara tilfinningalega, þetta er hernaður gegn sérhverju lýðræðisríki í Evrópu og hefur víðtæk áhrif. Samstaðan með Úkraínu er ekki aðeins samkennd með fólki í fjarlægu landi. Þetta er samstaða sem er líka nauðsynleg vegna okkar eigin hagsmuna og ég ætla svolítið að einblína á þá.

Fólskuleg innrás Rússa í Úkraínu auk mikilla breytinga á alþjóðasamfélaginu á undanförnum árum og þeirra langvarandi áhrifa felur í sér að við þurfum að skoða ákveðin viðbrögð, okkur. Ég ætla að fara yfir fjóra þætti. Í þessum tilgangi þurfum við í fyrsta lagi að sýna öflugri samstöðu með bandalagsþjóðum okkar í NATO og við gerum áætlun um stóraukna þátttöku okkar þar í gegnum borgaraleg störf sem tengjast sameiginlegum verkefnum bandalagsins.

Í öðru lagi, til þess að treysta varnarsamstarf okkar við Bandaríkin og það verði virkari í ljósi nýrrar hættu sem steðjar að öryggi þjóða, verðum við að óska eftir viðræðum við Bandaríkin um viðbót við varnarsamning landanna sem tryggi sérstaklega að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti til netárása sem beinast að öryggi landsins, að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti líka til mikilvægis órofinna samskipta Íslands við umheiminn á ófriðartímum eins og birgða og fólksflutninga, sæstrengja og orkuöryggis, og að varnarsamningurinn geymi líka ákveðin ákvæði um verkferla sem eigi að virkja þurfi á aðstoð Bandaríkjamanna að halda.

Í þriðja lagi þá vil ég draga það fram að ég tel rétt að við höldum öllu opnu varðandi það að meta strax mikilvægi varanlegrar viðveru varnarliðs í samvinnu við bandalagsríki okkar og sérfræðinga, sérstaklega með öryggi og varnir Íslands í huga. Þarna þarf að eiga sér stað kalt hagsmunamat.

Í fjórða lagi, til þess að treysta stöðu Íslands, verðum við að meta kosti þess alveg óhrædd að stíga lokaskrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins að fullri aðild. Einkum verði horft til þess að treysta pólitíska stöðu landsins og öryggishagsmuni okkar með því að fá sæti við borðið eins og í Atlantshafsbandalaginu. Danir eru þessa dagana að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það að afnema varnarfyrirvarann til þess að þeir geti af fullum krafti og þunga tekið þátt í samstarfi og samvinnu innan ESB og átt sæti við borðið.

Við stofnun Atlantshafsbandalagsins var ekki eina viðbragð vestrænna ríkja eftir síðari heimsstyrjöld að Bandaríkin ákváðu að veita stríðshrjáðum Evrópuríkjum gífurlega efnahagsaðstoð sem kennd var við Marshall. Við verðum strax að fara að huga að því þegar kemur að Úkraínu og vera tilbúin að styðja strax við landið og segja það núna í dag. Eftir þessa efnahagsaðstoð þá lögðu Bandaríkin líka fast að Evrópuþjóðum að bindast samtökum um aukna samvinnu á sviði viðskipta og efnahagsmála og Evrópusambandið er einmitt sprottið úr þeim jarðvegi. Síðustu atburði sýna svo ekki verður um villst að bandalag um varnir og efnahag verður ekki í sundur slitið. Það hefur verið gæfa okkar Íslendinga að eiga fulla aðild að bandalaginu.

Virðulegi forseti. Við stöndum andspænis nýjum áskorunum, nýjum valdahlutföllum í heiminum og við þurfum að horfast í augu við það að við þurfum að meta okkar hagsmuni núna út frá þeim aðstæðum sem eru í dag. Viðbrögð okkar við stríðinu í Úkraínu eiga því ekki einskorðast við daginn í dag. Samhliða því að taka vel og mynduglega á móti flóttafólki frá Úkraínu, standa vel með efnahagsþvingunum og gera allt til þess að treysta samstöðu þjóðanna, þurfum við að horfa, virðulegi forseti, fram í tímann. Við þurfum að meta stöðu Íslands í nýju ljósi og tryggja framtíðarhagsmuni landsins á öllum sviðum og við þurfum að þora að gera það.