152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[14:26]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Húsnæðismál eru almennt á könnu sveitarfélaga og þau þurfa virkilega að gyrða sig í brók og úthluta lóðum sem eru ekki of dýrar og passa upp á að framkvæmdir verði ekki tafðar með skrifræði. Þetta þarf að eiga sér stað án tafar. Skipuleggja þarf ný hverfi til uppbyggingar, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem eftirspurnin er mest. Ríkið verður að styðja við svona aðgerðir á allan þann hátt sem því er kleift, því að það er sannkallað neyðarástand á húsnæðismarkaði og ríkið getur ekki firrt sig ábyrgð á því.

Eins og alltaf kemur skortur verst niður á þeim sem minnst hafa á milli handanna. Það á einnig við um skort á húsnæðismarkaði þegar verðhækkanir fara upp úr öllu valdi eins og nú er raunin. Yfirboð eru ekki undantekning heldur reglan á húsnæðismarkaði í dag. Það er hreinlega slegist um hverja eign og allt of margir um hituna. Þessi staða er engum til góðs nema þá kannski fjárfestum, því að nú sjá margir hagnaðarvon í því að eiga húsnæði. Ég veit persónulega um nokkur dæmi þess á undanförnum vikum að eignir hafi verið borgaðar á borðið. Hvaðan þeir peningar koma veit ég ekki. En hitt veit ég að slíkt er ekki á færi venjulegs fólks sem er að reyna að koma sér og sínum þaki yfir höfuðið. Þetta er reyndar kallað seljendamarkaður og vissulega fá seljendur gott verð fyrir sínar eignir, en þeir eiga þá samt flestir eftir að kaupa eign og eru þá um leið lentir hinum megin við borðið. Þannig að yfir það heila hagnast enginn á þessu ástandi. Það tapa allir.

Þó að það sé hlutverk sveitarstjórna að úthluta lóðum og þó að verið sé að byggja meira upp núna en mörg undanfarin ár í Reykjavík var uppbygging íbúða á viðráðanlegu verði trössuð í allt of mörg ár í höfuðborginni sem og fleiri sveitarfélögum, þannig að meiri uppbygging segir því miður ekki alla söguna. Sem betur fer eru framfarir, en staðreyndin er engu að síður sú að uppbyggingin er allt of hæg og alls ekki næg. Það vantar meira en 15.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu nú þegar, nokkur hundruð íbúðir eru eins og dropi í hafið í því ástandi. Nú þarf að skipuleggja ný hverfi, t.d. í Keldnaholti og byggja nýtt Breiðholt með hraði. Þetta átti að vera komið af stað fyrir löngu, en betra er seint en aldrei. Það þarf að byrja á þessu strax í dag.